Bandaríska landbúnaðarráðuneytið (USDA) hefur tilkynnt að það muni veita einum milljarði dala til að hjálpa bandarískum bændum að berjast gegn fuglaflensunni sem hefur drepið milljónir kjúklinga og hækkað verð á eggjum í landinu.
Á vef BBC segir að yfirvöld muni veita 500 milljónum dala í líföryggisráðstafanir, rúmlega 100 milljónum dala í þróun og rannsókn á bóluefni og 400 milljónum dala í fjárhagsaðstoð til bænda.
Samkvæmt tölum frá USDA hafa meira en 35 milljónir fugla verið drepnir til að bregðast við útbreiðslu fuglaflensu á þessu ári. Þetta hefur orðið til þess að meðalverð á eggjum í Bandaríkjunum hefur hækkað um 53% milli ára og gæti hækkað aukalega um 41%.
Bandarísk stjórnvöld hafa þá einnig íhugað að flytja inn egg, sem uppfylla bandarískar reglugerðir, tímabundið til að koma til móts við eftirspurn. USDA segist einnig ætla að útrýma reglugerðum sem ráðuneytið telur að hækki verð á eggjum.