Stjórnir systurfélaga Toyota umboðsins á Íslandi hafa lagt til að greiddur verði út milljarður króna í arð vegna rekstrarársins 2023, þar af 700 milljónir hjá Toyota á Íslandi ehf. og 300 milljónir hjá TK bílum ehf.
Til samanburðar greiddu félögin, sem eru í jafnri eigu Úlfars Steindórssonar og Kristjáns Þorbergssonar, samtals tvo milljarða króna í arð á síðasta ári vegna rekstrarársins 2022.
Í skýrslu stjórnar TK bíla segir að sala á árinu 2024 sé í samræmi við árið 2023 og væntingar séu um gott rekstrarár.
Stjórn Heklu bílaumboðsins leggur til að greiddar verði 175 milljónir króna í arð, sem er sama upphæð og greidd var í arð árið áður. Stjórn Öskju leggur til 300 milljóna króna arðgreiðslu, en félagið greiddi ekki arð árið áður. Brimborg og BL greiða hins vegar engan arð á árinu vegna síðasta rekstrarárs. Brimborg greiddi síðast arð til hluthafa árið 2022, 100 milljónir króna vegna rekstrarársins 2021. BL greiddi milljarð króna í arð á árinu 2023 og hálfan milljarð árið áður.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í síðustu viku.