Meira en milljón manns í Bretlandi misstu af skilafrestinum til að skila inn skattframtali sínu samkvæmt HM Revenue and Customs. Rúmlega 11,5 milljónir manna skiluðu inn framtalinu á réttum tíma og skiluðu 31 þúsund manns framtalinu á síðasta klukkutímanum.
Þetta kemur fram á vef BBC en þar segir að þeir sem misstu af skilafrestinum eigi nú yfir höfði sér sekt upp á að minnsta kosti hundrað pund, eða um 17 þúsund krónur, nema þeir geti veitt gilda afsökun fyrir sínum málum.
Sjálfstætt starfandi einstaklingar eða þeir sem hafa fleiri en eina tekjulind eru meðal þeirra sem þurfa að skila inn skattframtali á hverju ári. Sumir áttu hins vegar í erfiðleikum með að greiða síðasta föstudag vegna tæknilegra vandamála hjá Barclays.
Breski skatturinn hefur þó vísað allri gagnrýni um lélega símaþjónustu á bug en margir skattgreiðendur halda því fram að stofnunin hafi reynt að þrýsta á þá til að leita sér aðstoðar á netinu frekar en í síma.
Nýjar reglur fóru einnig í gildi á þessu ári þar sem vefsölur eins og eBay og Vinted verða að segja HMRC frá fólki sem selur meira en 30 hluti eða þénar að minnsta kosti 1.700 pund á vefsíðum þeirra.