Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) hefur sektað Frjálsa lífeyrissjóðinn um 1,2 milljónir króna fyrir að tilkynna ekki tímanlega um flöggun eftir að hlutur sjóðsins í Reitum fasteignafélagi fór undir 5% eftir ríflega 40 milljóna króna sölu í félaginu þann 17. nóvember 2021. Þetta kemur fram í tilkynningu Fjármálaeftirlitsins.
Frjálsi sendi flöggunartilkynningu til Reita og fjármálaeftirlitsins vegna viðskiptanna þann 4. janúar 2022. Í tölvupósti Frjálsa til FME sagði sjóðurinn að mannleg mistök hafi valdið því að tilkynning var ekki send vegna viðskiptanna fyrr en á þeim tímapunkti. Eftir samskipti á milli sjóðsins og FME í febrúar óskaði Frjálsi eftir sátt í málinu.
Við ákvörðun sektarfjárhæðar horfði FME til mikilvægis flöggunarinnar og hversu langur tími leið frá því að tímafresti til að senda umræddar tilkynningar lauk og þangað til Frjálsi sendi tilkynninguna. Til lækkunar á sektarfjárhæð var horft til þess að Frjálsi átti frumkvæði að því að tilkynna um brotið og hefur þegar gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að sambærilegt brot geti átt sér stað.