London er ekki lengur meðal fimm ríkustu borga heims samkvæmt nýrri skýrslu frá ráðgjafafyrirtækinu Henley & Partners. Þar segir að engin borg í heiminum, fyrir utan Moskvu, hafi misst fleiri milljónamæringa á síðasta ári en London.

Í skýrslunni segir að hátt í 11.300 milljónamæringar hafi yfirgefið borgina, þar á meðal 18 milljónamæringa sem áttu meira en 100 milljónir dala og tvo milljarðamæringa.

Rúmlega 215 þúsund milljónamæringar eru eftir í London en borgin virðist hafa dottið úr tísku sem alþjóðlegur áfangastaður fyrir hina ríku og frægu. Greiningaraðilar segja að efnahagshorfur Bretlands og skattstefna yfirvalda hafi átt mikinn þátt í þróuninni.

Skýrslan bætir við að London sé aðeins ein af tveimur borgum á topp 50-listanum sem séu nú með færri milljónamæringa en fyrir tíu árum síðan.