Bandaríska streymisveitan Disney+ missti 4 milljónir áskrifenda á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Á sama tímabili tapaði Disney 400 milljónum dala og hafa hlutabréf í fyrirtækinu einnig lækkað um 5%.

Flestar uppsagnir komu frá Asíu eftir að indverska Disney+ Hotstar streymisþjónustan missti einkaréttinn til að streyma krikketleiki á síðasta ári. Tæplega 300.000 áskrifendur í Bandaríkjunum og Kanada sögðu einnig upp áskrift sinni í kjölfar hækkun á mánaðargjöldum.

Bob Iger, forstjóri Disney, segir að núverandi fjárhagsstaða Disney endurspegli þær breytingar sem fyrirtækið standi yfir en Disney tilkynnti nýlega að 7.000 starfsmönnum yrði sagt upp.

Tilkynningin kom meðal annars í kjölfar verkfalls af hálfu handritshöfunda en Samtök handritshöfunda í Hollywood efndu til síns fyrsta verkfalls í 15 ár. Síðasta verkfall handritshöfundana var árið 2007 og stóð yfir í 100 daga.

Christine McCarthy, fjármálastjóri Disney, hefur ekki greint frá því hve mikið fyrirtækið gæti mögulega tapað á verkfallinu en hlé hefur verið gert á nokkrum verkefnum streymisveitunnar.

Samkvæmt Disney eru áskrifendur Disney+ 158 milljónir talsins á meðan helsti keppinautur streymisveitunnar, Netflix, er með 232 milljónir.