Disney greindi í gær frá áhorfstölum og segir að hátt í 157 milljónir notenda á heimsvísu horfi á efni með auglýsingum á streymisveitunni í hverjum mánuði. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtæki greinir frá slíkum tölum.

Af þeim 157 milljónum sem fylgjast með efni á Disney+, Hulu og ESPN+ eru 112 milljónir þeirra í Bandaríkjunum.

Á vef CNBC segir að hefðbundnar sjónvarpsstöðvar geti mælt áhorf en að engin stöðluð aðferðafræði sé til staðar til að mæla áhorf á streymisveitum. Disney vilji þá betur skilgreina áhorfendafjölda með auglýsingatekjur að leiðarljósi.

„Við vildum vera fyrstir til að bjóða iðnaði okkar meira gagnsæi í aðferðafræðinni sem notuð er til að mæla virka notendur á heimsvísu þegar hugað er að auglýsingum,“ segir Rita Ferro, forstjóri alheimsauglýsinga hjá Disney.