Sameignarfélagið Hlíðarendi ses greiddi Knattspyrnufélaginu Val 165 milljónir í styrki á síðasta ári. Því hafa yfir 900 milljónir króna runnið í styrki til Vals frá árinu 2018 frá Hlíðarenda ses og Valsmönnum.
Félagið Hlíðarendi ses var stofnað árið 2013 og var því ætlað að nýta ágóða af húsnæðisuppbyggingu á Hlíðarenda til að styrkja starfið hjá Val. Bókfært eigið fé Hlíðarenda ses nam 540 milljónum króna í árslok 2021.
Sjá einnig: Tveggja milljarða hagnaður Valsfélags
Helsta eign félagsins er ríflega 80% hlutur í Valsmönnum hf., fjárfestingarfélagi sem stofnað var árið 1999 og ætlað að safna og ávaxta fé sem kæmi Val til góða.
Hlutur Hlíðarenda ses í Valsmönnum er bókfærður á ríflega 200 milljónir króna en eigið fé Valsmanna hf. nam um 1,7 milljörðum króna í árslok 2020. Þá var hlutur í fasteignafélaginu B-reitur bókfærður á 300 milljónir króna hjá Hlíðarenda.
Selt íbúðir og lóðir fyrir yfir 15 milljarða
Umsvifamesta félagið um íbúðauppbyggingu hefur verið félagið félagið Hlíðarfótur ehf., sem er nú til helminga í eigu Valsmanna hf. og F-reits ehf., sem er aftur í eigu hóps fjárfesta. Hlíðarfótur seldi í það heila íbúðir og lóðir fyrir um fimmtán milljarða króna á árunum 2015 til 2021.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.