Munnbitinn ehf., félag utan um rekstur Minigarðsins, hagnaðist um 23 milljónir króna eftir skatta árið 2023. Til samanburðar tapaði félagið 88 milljónum á rekstrarárinu 2022 sem litaðist talsvert af rekstri Bryggjunnar Brugghúss sem var seldur um mitt ár 2022.

Hagnað félagsins í fyrra má einkum rekja til 60 milljóna króna tekjufærslu vegna sölu á vörumerkjum og rekstri þeirra - sem snúa að Barion, Vegan Rebel, 12 Tomman, Hangry Burger GaggalaGoo – út úr félaginu.

Mikil veltuaukning en neikvætt EBIT

Velta Minigarðsins jókst um 28% milli ára, eða um meira en hundrað milljónir, og nam 474 milljónum króna.

Rekstrargjöld námu 462 milljónum og var því rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) upp á tæplega 12 milljónir króna í fyrra samanborið við 12 milljóna EBITDA-tap árið 2022. Rekstrarafkoma (EBIT) var neikvæð um 22 milljónir.

„Reiknað er með því að starfsemi félagsins muni ekki breytast verulega í umfangi á næsta ári,“ segir í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins.

Eignir Munnbitans voru bókfærðar á 263 milljónir króna í árslok 2023, en þar af var viðskiptavild upp á 40 milljónir. Eigið fé félagsins var neikvætt um 12 milljónir og skuldir námu ríflega 275 milljónum.

Sigmar Vilhjálmsson er aðaleigandi Munnbitans með 52,1% eignarhlut. Aðrir hluthafar eru Vilhelm Einarsson með 14,6% hlut, Hjálmar Vilhjálmsson með 12,4% hlut, Einar Bergur Ingvarsson með 12,4% hlut og Snorri Marteinsson með 8,5% hlut.

Lykiltölur / Munnbitinn ehf.

2023 2022
Rekstrartekjur 474,2 370,1
EBITDA 11,8 -12,5
EBIT -21,6 -43,8
Aflögð starfsemi - rekstur seldur 60 -59,9
Afkoma e. skatta 23,3 -88,2
Eignir 263,1 278,1
Eigið fé -11,7 -35,0
Ársverk 18,1 28,3
- í milljónum króna