Minnkandi eftirspurn eftir ferðalögum hefur haft neikvæð áhrif á bandaríska flugfélagið Southwest Airlines sem lækkaði nýverið afkomuspár sínar fyrir þetta ár og það næsta, vegna óvissu í efnahagsumhverfinu.

Fyrirtækið dró til baka áætlanir sínar um rekstrarhagnað fyrir vexti og skatta (EBIT) fyrir árin 2025 og 2026.

Þrátt fyrir það staðfesti Southwest að aðgerðir sem nýverið var ráðist í til að bæta fjárhagsstöðu fyrirtækisins væru enn á áætlun.

Á fyrsta ársfjórðungi skilaði Southwest um 149 milljóna dala tap. Á sama tíma skiluðu samkeppnisaðilarnir United Airlines og Delta Air Lines hagnaði. Leiðrétt tap félagsins nam 13 sentum á hlut, sem var þó minna en 18 senta tap sem markaðsgreiningaraðilar höfðu spáð.

Tekjur Southwest á fyrsta ársfjórðungi voru meiri en nokkru sinni fyrr. Hins vegar minnkaði eftirspurn jafnt og þétt yfir tímabilið, sérstaklega í innanlandsferðum.