Sam­kvæmt til­lögum sem viðræðu­nefnd fjár­málaráðherra og ráðgjafar 18 líf­eyris­sjóða mótuðu um upp­gjör íbúða­bréfa (HFF-bréfa) verður ekki annað séð en að fjár­festar þurfi að sætta sig við lægri ávöxtun en þeir annars fengju og til viðbótar er fjár­festum mis­munað bæði eftir flokkum og magni.

Eitt af helstu álita­málunum í upp­gjör­stillögunum er hvernig greiðslur eru upp­byggðar fyrir mis­munandi hópa skulda­bréfa­eig­enda.

Sam­kvæmt til­lögunum verða kröfur sam­kvæmt HFF-bréfum gerðar upp með ríkis­skulda­bréfum, öðrum verðbréfum og reiðufé í bæði evrum og ís­lenskum krónum.

Tilboðið til eigenda HFF34 er tvískipt, tilboð til þeirra sem eiga minna en 1.200 milljónir og þeirra sem eiga meira.

Allir eigendur bréfanna þurfa að afhenda HFF34 á 3,57% ávöxtunarkröfu og fá í staðinn afhent bréf og peninga samkvæmt töflunni hér að neðan:

Tilboðið til eigenda HFF44 er einnig tvískipt, tilboð til þeirra sem eiga minna en 1.200 milljónir og þeirra sem eiga meira.

Allir eigendur bréfanna þurfa að afhenda HFF44 á 3,17% ávöxtunarkröfu og fá í staðinn afhent bréf og peninga samkvæmt töflunni hér að neðan:

Þar sem báðir skuldabréfaflokkarnir, HFF34 og HFF44 bera 3,75% vexti og kjörin sem bjóðast á hin ýmsu bréf í staðinn eru lægri en kjörin sem ríkið vill leysa HFF til sín á, fæst í öllum tilvikum betri ávöxtun með því að fjárfestarnir afþakki tilboð ríkisins.

Hér ber að hafa í huga að þar sem íbúðabréfin sem voru gefin út 2004 voru gefin út í 1 krónu einingum, sem gerir þau hæf fyrir almenna fjárfesta, fylgja strangari lagakröfur til útgefanda bréfanna og sterkari rök fyrir fjárfestavernd en þegar bréf eru einungis seld fagfjárfestum.

Með það í huga er því varhugavert að ríkissjóður skuli bjóða minni skuldabréfaeigendum skuldabréf á lægri ávöxtun en ríkið býður stærri fjárfestum.

Annað atriði sem veldur óvissu er sú staðreynd að nokkrar vikur munu líða milli viðmiðunardags og þess dags er uppgjör fer fram.

Það þýðir að greiðslur geta tekið breytingum vegna vaxtagreiðslna og verðbreytinga á uppgjörseignum.

Þessi óvissa skapar áhættu sem bitnar sérstaklega á minni fjárfestum, þar sem þeir hafa síður tök á að verja sig fyrir sveiflum á markaði.

Tillögur og uppgjörsfundur á veikum lagalegum grunni

Endanlegar tillögur um breytingar á greiðsluskilmálum HFF-bréfa verða lagðar fyrir fundi skuldabréfaeigenda, þar sem 75% samþykki er nauðsynlegt til að tillögurnar nái fram að ganga.

Ef samþykkt fæst, mun fjármála- og efnahagsráðherra leggja fyrir Alþingi frumvarp til fjáraukalaga vegna útgáfu nýrra ríkisskuldabréfa.

Líkur eru á að minni fjárfestar muni hafa minni áhrif á atkvæðagreiðsluna en stærri aðilar, sem gætu átt hagsmuna að gæta af því að samþykkja tillögurnar í núverandi mynd.

Þar með standa minni fjárfestar frammi fyrir þeirri stöðu að fá minna í sinn hlut en þeir hefðu vænst og eiga erfitt með að hafa áhrif á niðurstöðuna.

Hins vegar er uppgjörsfundurinn og tilboðið sem verið er að bjóða minni fjárfestum í andstöðu við niðurstöður minnisblaðs um málefni ÍL-sjóðs og ábyrgð íslenska ríkisins, sem Landslög vann fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Þar segir að í skilmálum skuldabréfaútgáfunnar komi fram að ekki sé unnt að greiða skuldina hraðar eða með öðrum hætti en um var samið.

Að mati lögfræðiálitsins getur íslenska ríkið því ekki sem ábyrgðarmaður leyst undan skuldbindingu sinni með einhliða greiðslu eða með því að bjóða skipti á annars konar bréfum. Kröfuhafi gæti hafnað slíkum efndum á kröfunni.

Ekki er að finna á heimasíðu ráðuneytisins nein gögn eða álit sem útskýra á hvaða forsendum ríkið telur sér fært að fara leið sem samkvæmt minnisblaðinu er óheimilt að fara.

Úr minnisblaði um málefni ÍL-sjóðs og ábyrgð íslenska ríkisins sem Landslög vann árið 2022..