Dregið hefur úr framvirkri stöðutöku með krónunni upp á síðkastið. Viðskiptavinir bankanna, t.d. ferðaþjónustufyrirtæki, hafa ekki selt jafnháar fjárhæðir af gjaldeyri framvirkt og áður. Í lok maí var staðan um 102 milljarðar en á sama tímabili í fyrra var um að ræða 175 milljarða.
Þó að þetta þýði að fjárfestar búist ekki við frekari hækkun á gengi krónunnar mun þetta líklegast valda því að innflæði gjaldeyris í háönn ferðaþjónustunnar í júlí og ágúst muni hafa meiri áhrif á krónuna en ef það væri búið að selja meiri gjaldeyri framvirkt.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að framvirk staða viðskiptavina bankanna hafi haft töluverð áhrif á væntingar til gjaldeyrisflæðis til sumarsins.
„Staðan er í rauninni, og hefur alltaf á síðustu árum verið þannig, að framvirk gjaldeyrisstaða bankanna er jákvæð. Staðan sveiflast upp og niður eftir því hvað viðskiptavinir bankanna selja mikið af væntu gjaldeyrisinnflæði framvirkt. Bæði aðilar sem eru bara að verja gjaldeyrisáhættu og líka einhverjir spákaupmenn í stöðutöku. Í lok maí voru þetta 102 milljarðar en á sama tímabili í fyrra voru þetta 175 milljarðar.
Þetta þýðir að ferðaþjónustuaðilar og aðrir, t.d. þar sem er mikil árstíðarsveifla í gjaldeyrisinnflæðinu, hafa selt minna af þessum gjaldeyri framvirkt, sem þýðir að flæðið þegar það kemur núna í háönninni hefur trúlega meiri áhrif á krónuna heldur en það myndi gera ef það væri búið að selja meirihlutann af þessum gjaldeyri framvirkt. Þá væri búið að raungera þetta flæði fyrr.“
Þar sem háönn ferðaþjónustunnar lítur ágætlega út um þessar mundir eftir batnandi horfur verða því áhrifin af komu ferðamanna líklegast meiri en áður.
„Það eru ágætis líkur á að árstíðarbundin áhrif á krónuna verði meiri heldur en oft áður þegar júlí og ágúst fara að skila þessum toppum í gjaldeyristekjum eins og þeir gera alltaf.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um verðbólguvæntingar, krónuna og vaxtamunaviðskipti í Viðskiptablaði vikunnar.