Landsbréf, sjóðastýringarfyrirtæki í eigu Landsbankans, hagnaðist um 437 milljónir króna eftir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins. Hagnaðurinn dróst saman um 9,4% frá sama tímabili í fyrra þegar félagið skilaði hagnaði upp á 483 milljónir.

Hreinar rekstrartekjur Landsbréfa drógust saman um 8,3% milli ára og námu 1.084 milljónum króna á fjórðungnum.

Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa, segir að rekstur félagsins hafi gengið vel á tímabilinu. Ávöxtun sjóða Landsbréfa hafi verið misgóð á tímabilinu eftir tegundum sjóða „en vel ásættanleg í samanburði við helstu samkeppnisaðila“.

„Markaðsaðstæður héldu áfram að vera krefjandi á fyrri hluta ársins, einkum á innlendum hlutabréfamarkaði,“ segir Helgi Þór, í afkomutilkynningu félagsins.

„Verðbólga hefur komið hægar niður en vonir stóðu til og vaxtastig hefur haldist hátt. Það er sameiginlegt verkefni allra að stuðla að lægri verðbólgu til að tryggja að hagkerfið nái mjúkri lendingu og tryggja þannig stöðugleika til framtíðar.“

Eignir Landsbréfa voru bókfærðar á 4.306 milljónir króna í lok júní síðastliðnum. Eigið fé var 3.555 milljónir samanborið við 4.118 milljónir í árslok 2023 en Landsbréf greiddu 1.000 milljónir króna í arð til Landsbankans í maí.