Eftir að innflutningur á ófrostnu kjöti var heimilaður um áramót hefur einungis verið flutt inn 1,2 tonn af ófrostnu nautakjöti og 21 tonn af ófrostnum kalkúni að því er Morgunblaðið fjallar um uppúr tölum Hagstofunnar.
Fyrsta sendingin af ófrostnu nautakjöti kom um miðjan febrúar, en í þeim mánuði voru 28 tonn af frostnu nautakjöti flutt inn.
Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri Landsambands kúabænda segir það koma sér skemmtilega á óvart hversu lítill innflutningurinn sé.
„[V]ið gerðum ráð fyrir að hann gæti orðið meiri,“ segir Margrét. „Þetta er töluvert minna en við hefðum haldið, miðað við hvernig umræðan og þrýstingurinn hefur verið.“
Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um tilraunir innflytjenda til að fá banni við innflutningi á frostnu kjöti hnekkt samkvæmt EES reglum og endanlegum sigri þeirra í baráttunni.
Að sögn Margrétar varð samdráttur í sölu á nautakjöti innanlands fyrstu tvo mánuði ársins, en verð á kýrkjöti til bænda hafi verið lækkað vegna mikilla hakkbirgða. Nú hafi sláturleyfishafar þó farið að auglýsa á ný eftir ungnautum.
Vegna ástandsins sem skapast hefur vegna kórónuveirufaraldursins býst Margrét við samdrætti í sölu til hótela og veitingahúsa og innkaupamynstur fólks kunni að breytast, svo það kaupi síður dýrari afurðir.