Íslenska nýsköpunar- og hátæknifyrirtækið Thor Ice Chilling Solutions fékk á dögunum tilnefningu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Fyrirtækið - sem var formlega stofnað árið 2014 þótt saga þess teygi sig tæplega tvo áratugi aftur í tímann - sérhæfir sig í ískrapa- og kælitækni við kælingu matvæla. Tæknin sem lausnir fyrirtækisins byggja á hraðar kælingu matvæla og dregur þar með úr matarsóun með því að auka geymsluþol. „Fyrstu árin seldi ég sjálfur heima hjá mér við stofuborðið. Árið 2011 fengum við svo aðstöðu í Sjávarklasanum og höfum stækkað smátt og smátt síðan þá," segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Thor Ice.

Hann segir næsta vaxtarspor framundan en í dag eru níu starfsmenn fastráðnir hjá fyrirtækinu, auk þess sem nokkrir sinna ráðgjöf við fyrirtækið í hlutastarfi. Stefnt sé á að fjölga starfsfólki og að auki standi yfir leit að skrifstofu- og framleiðsluhúsnæði, þar sem fyrirtækið hafi þegar sprengt utan af sér skrifstofuna í Sjávarklasanum. „Við höfum tvöfaldast í Covid og gerum að sama skapi ráð fyrir að tvöfaldast á næsta ári. Til framtíðar er planið svo að koma upp starfsstöðvum víða um Evrópu."

Leysa stærsta vandamál kjúklingaframleiðslu

Þorsteinn segir Thor Ice vera að færa tækni sem hefur verið beitt í sjávarútvegi yfir í aðra geira matvælaiðnaðarins. Áhersla fyrirtækisins hafi í upphafi verið á sjávarútveginn en hafi síðar færst annað. „Við komumst í kynni við erlenda aðila sem voru mættir til að heimsækja annað fyrirtæki sem var með skrifstofu í Sjávarklasanum. Þeir fengu leiðsögn um klasann og komu m.a. við á skrifstofunni okkar og fengu kynningu á fyrirtækinu. Þar komum við m.a. inn á að við höfum verið að veita kælilausnir fyrir sjávarútveginn sem við töldum að mætti einnig heimfæra yfir í kjúklingaframleiðslu. Einn gestanna varð mjög spenntur, þar sem stærsta vandamál við kjúklingaframleiðslu í heiminum er einmitt kælingin. Hann hafði starfað sem framkvæmdastjóri hjá Marel í Moskvu um nokkurra ára skeið og þekkti því markaðinn. Þegar við áttuðum okkur á því að við gætum leyst stærsta vandamál kjúklingaframleiðslu settum við allt púður í það."

Í kjölfarið komst Thor Ice í samband við kjúklingaframleiðandann Matfugl, sem sýndi kerfi fyrirtækisins mikinn áhuga. „Matfugl endaði á að kaupa kerfi af okkur áður en það var endanlega tilbúið og hjálpaði við þróun þess. Þetta samstarf hefur gefist mjög vel og við erum þeim mjög þakklát fyrir þolinmæðina sem þau hafa sýnt, enda vorum við svolítið að finna upp hjólið með því að setja upp kerfi sem er ólíkt öðrum," segir Þorsteinn. Hann bendir á að kerfi Thor Ice auki ekki einungis geymslutíma kjúklingsins heldur auki það einnig framleiðslugetu verksmiðjunnar. „Kerfið hefur gert þeim kleift að auka framleiðsluna um 30% og á sama tíma hefur verið hægt að minnka vinnustundir starfsfólks. Auk þess hefur nýtni hráefnisins aukist sem og að með þessu hefur geymsluþol aukist til muna."

Thor Ice hefur einnig komið að hinum ýmsu verkefnum erlendis. „Við höfum ískrapavætt tvær stærstu útgerðir Hollands. Þá höfum við einnig selt kerfi til Chile, Perú, Noregs, Danmerkur og Færeyja. Þessa stundina eigum við svo í samstarfi við LDC, stærsta kjúklingaframleiðanda Evrópu, um að setja upp kælikerfi í verksmiðju sem verið er að stækka."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .