Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er áfram á uppleið og mælist með þriðjungsfylgi en fylgi Samfylkingarinnar dalar samkvæmt nýrri könnun Gallup. Framsóknarflokkurinn nær rétt svo að verjast falli á meðan Flokkur fólksins dettur út. Sósíalistaflokkurinn er þriðji stærsti flokkurinn samkvæmt könnuninni.

Minnihlutinn sækir á

Sjálfstæðisflokkurinn hefur stóraukið fylgi sitt á síðustu mánuðum en flokkurinn mældist með 31,2% fylgi í janúar og 33,9% í nýjustu könnuninni.  Til samanburðar var flokkurinn með 24,5% fylgi í kosningunum 2022 og fékk 6 borgarfulltrúa. Miðað við nýjustu könnunina myndi flokkurinn bæta við sig þremur fulltrúum og eiga samtals 9 borgarfulltrúa.

Framsóknarflokkurinn, sem sleit fyrra meirihlutasamstarfi í febrúar, mældist með 3,3% fylgi í janúar og þar með enga borgarfulltrúa en hefur náð sér örlítið á strik og mælist nú með 4,7%. Fylgi flokksins hefur þó minnkað verulega frá kosningunum en flokkurinn var með 18,7% fylgi í kosningunum 2022 og fékk 4 borgarfulltrúa en myndi miðað við nýjustu mælingu einungis fá einn borgarfulltrúa.

Viðreisn, sem er með einn kjörinn fulltrúa og var sömuleiðis í fyrri meirihluta, hafði verið á nokkru flugi og mældist í janúar með 11% fylgi og þar með þrjá borgarfulltrúa. Í mars dalaði fylgið þó lítillega  og mældist 9,5% en miðað við þá mælingu væri Viðreisn með tvo borgarfulltrúa.

Miðflokkurinn, sem var aðeins með 2,4% fylgi í kosningunum 2022, mældist þegar mest var með 8,6% fylgi í október en mælist nú með 5,1% fylgi, sem myndi duga til að koma einum manni inn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér og blaðið hér.