Guðmundur Kristjánsson hyggst sitja í stjórn HB Granda á sama tíma og hann starfar sem forstjóri. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins. Vika er frá því að meirihluti stjórnar ákvað að semja um starfslok við Vilhjálm Vilhjálmsson sem hefur gegnt starfi forstjóra undanfarin sex ár. Á sama tíma lét Guðmundur af embætti stjórnarformanns. Hann hefur hins vegar ekki sagt sig úr stjórn og hyggst samkvæmt heimildum ekki gera það. Fari svo verður HB Grandi eina félagið í Kauphöllinni þar sem forstjóri situr jafnframt í stjórn.
Þá herma heimildir blaðsins að vilji minnihluta stjórnar HB Granda á stjórnarfundinum á fimmtudaginn í síðustu viku hafi ekki verið að bíða með forstjóraskiptin þangað til eftir að tilboðsfrestur yfirtökutilboðs Brims, félags Guðmundar, rynni út, heldur að Vilhjálmur sæti áfram sem forstjóri félagsins. Í gærkvöldi sagði Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto í Straumsvík, sig úr stjórn HB Granda. Í tilkynningu frá Rannveigu kemur fram að hún sé bæði ósátt við þá ákvörðun að segja Vilhjálmi upp og hvernig að uppsögninni hafi verið staðið.
Frestur hluthafa til að taka yfirtökutilboðinu rennur út á morgun. Í greinargerð stjórnar með yfirtökutilboðinu segir meðal annars að stjórn hafi ekki í hyggju að breyta aðalstarfsemi félagsins, meginþáttum rekstrar, starfsmannahaldi eða starfsstöð. Þrátt fyrir það hafi verið ákveðið að skipta um forstjóra, sem verði að teljast umtalsverð breyting á starfsmannahaldi félagsins. Ekki er ljóst hvort og þá hvaða áhrif það hefur á tilboðið.
Þá hefur verið gefið út að eigendur ríflega 90% hlutar í félaginu, að Brimi meðtöldu, muni ekki taka yfirtökutilboðinu. Lögmenn sem Viðskiptablaðið ræddi við telja slíkar yfirlýsingar ekki bindandi og geti hluthafar því tekið tilboðinu allt þangað til tilboðsfrestur rennur út.
Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins segir sjóðinn enga skoðun hafa á ákvörðun stjórnarinnar um ráðningu Guðmundar. „Við kjósum í stjórn og treystum þeim til að taka þær ákvarðanir sem eru bestar fyrir félagið. Aðkoma okkar að þessari ákvörðun er engin. Afskipti okkar af rekstri félagsins á milli hluthafafunda er engin.“ LSR á um 14% í HB Granda.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .