Kartöfluuppskera hér á landi í fyrra var 5.514 tonn. Hún hefur ekki verið minni síðan 1993 þegar uppskeran var 3.913 tonn. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar.
Heildaruppskera korns, sem bændur þresktu af ökrum sínum árið 2024, var rúm 5.100 tonn en það er minnsta kornuppskera frá árinu 2018.
Mjólkurframleiðsla ekki verið meiri síðan 1977
Fram kemur að mjólkurframleiðslan árið 2024 hafi verið rúm 158 þúsund tonn og ekki verið meiri frá árinu 1977 eða eins langt aftur og gögn ná. Þá jókst ullarframleiðsla frá fyrra ári og var 553 tonn.
Uppskera á tómötum og papriku í ylrækt jókst miðað við árið 2023. Framleiðsla á agúrkum hefr verið í stöðugum vexti undanfarin 20 ár, samkvæmt Hagstofunni.
Salat er að mestu leyti framleitt í ylrækt og nam heildaruppskera þess 553 tonnum sem er 6% samdráttur frá árinu 2023. Þrátt fyrir það var þetta þriðja mesta salatuppskera sem mælst hefur.
Gulrótauppskeran var 481 tonn sem er minnsta uppskera í 11 ár og 53% minni en árið 2023. Rófuuppskeran var 549 tonn, 14% minni en árið 2023.