Microsoft tilkynnti í dag að það myndi segja upp 10 þúsund starfsmönnum en netrisinn fylgir þar í fótspor fjölda tæknifyrirtækja sem hafa ráðist í umfangsmiklar uppsagnir á síðustu misserum.

Satya Nadella, forstjóri Microsoft, sagði í færslu til starfsmanna að uppsagnirnar nái til færri en 5% af starfshópi félagsins á heimsvísu. Hann sagði að fyrirtæki víða um heim væru farin að sýna vargætni á útgjaldahlið sinni, ekki síst vegna efnahagssamdráttar í ákveðnum heimshlutum.

Nadella bætti við að fyrirtækið muni gjaldfæra 1,2 milljarða dala einskiptiskostnað vegna hópuppsagnarinnar.

Amazon tilkynnti einnig nýlega um að það myndi fækka 18 þúsund störfum hjá sér og Meta, móðurfélag Facebook, ákvað að segja upp um 11 þúsund manns.