Jón Daníelsson prófessor í hagfræði við London School of Economics og forstöðumaður rannsóknastofnunar kerfisáhættu í Bretlandi (e. Systemic risk centre) segir nýlegan áhuga fjármálayfirvalda á rafmyntum misráðinn og drifinn áfram af pólitískum þrýstingi. Engin fagleg rök séu fyrir því að eftirlitsstofnanir þrengi að rafmyntum í dag, og áhrifin gætu orðið þveröfug við það sem lagt var upp með.
Við þessu varar Jón í nýlegri grein sem ber titilinn Rafmyntir og eftirlitsstofnanir fjármálakerfisins.
„Það sem margir virðast ekki átta sig á er að rafmyntir eru í eðli sínu pólitískar, og að mínu mati hefur það eðli verið lykilþáttur í uppgangi þeirra,“ segir Jón um þá hugmyndafræði að rafmyntir, sér í lagi Bitcoin, séu einskonar uppreisn gegn peningaprentunarvaldinu og fjármálakerfinu sem á því byggir, sem talsmenn rafmynta lýsa gjarnan sem spilltu og segja það þjóna sínum eigin þröngu hagsmunum á kostnað almennings.
Verði að píslarvætti í stað þess að falla á eigin verðleikum
Rafmyntir eru að mati Jóns þegar farnar að sigla inn í sinn hinsta hnignunarfasa eftir hálfan áratug af stöðnun þrátt fyrir miklar sveiflur. Þrengi yfirvöld að þeim í dag verði það því einungis til þess fallið að styrkja pólitískar stoðir þeirra og veita ofangreindum málflutningi byr undir báða vængi.
„Þá fá þeir afsökun ef illa fer; blóraböggul. Þá er hægt að kenna seðlabankanum um það að rafmyntir hafi verið eyðilagðar, sem er miklu verra en að þær hafi fallið af sjálfsdáðum vegna eigin galla,“ segir hann. Því megi slá föstu að sú mynd verði máluð.
„Rafmyntir verði þannig ekki bara enn ein hugmyndin sem gekk ekki upp, heldur píslarvætti.“
Nánar er rætt við Jón í Viðskiptablaði vikunnar sem kom út í gærmorgun.