Kristján Berg Ásgeirsson, sem rekur Fiskikónginn og Heita potta, segir frá ferli síum í viðskiptalífinu í nýjum hlaðvarpsþætti Íslenska draumsins, þar á meðal fyrstu árin í atvinnurekstri, krefjandi tíma í fjármálahruninu og upphafið að rekstri Heita potta.
„Kristján er lifandi dæmi um hvað er hægt að ná með útsjónarsemi og miklum dugnaði,“ segir Sigurður Sindri Magnússon, stjórnandi hlaðvarpsins. „Hann hefur gengið í gegnum ótrúlegar áskoranir og sýnt hvað það þýðir að byggja sig upp frá grunni.“
„Ég dreifði athyglinni of mikið“
Ferill Kristjáns hófst þegar hann var aðeins 6-7 ára gamall og bar út dagblöð. Þegar hann komst á menntaskólaaldur vann hann á sumrin í fiski, lærði að handflaka og fékk þar fyrstu innsýn sína í rekstur. Hann skráði sig í viðskiptafræði og mannkynssögu en áttaði sig á að það var ekki hans áhugasvið, hætti í skóla og stofnaði sína fyrstu fiskbúð 18 ára gamall.
„Það var ótrúlega mikil vinna að reka eigin verslun svona ungur,“ segir Kristján í þættinum. „Ég lærði fljótt að það skiptir máli að einbeita sér að gæðum og þjónustu, en eins og margir ungir frumkvöðlar gerði ég líka mistök.“
Eitt af þessum mistökum, að hans mati, var að kaupa aðra fiskbúð 25 ára gamall.
„Ég dreifði athyglinni of mikið og tapaði fókusnum á því að gera eina verslun frábæra. Það var mikilvæg lexía.“
Leiðin til Danmerkur og nýr kafli
Árið 2001 flutti Kristján með fjölskyldu sinni til Danmerkur þegar eiginkona hans hóf nám þar. Þá var hann orðinn þreyttur á fiskinum og ákvað að leigja reksturinn sinn út til föður síns. Í Danmörku var hann óviss um næstu skref og eyddi tíma í að fjárfesta í hlutabréfum.
„Það var áhugavert tímabil,“ rifjar hann upp. „Hlutabréfamarkaðurinn gekk gríðarlega vel um tíma, og á einum degi hækkaði safnið mitt um 11 milljónir þegar ég var úti í búð með konunni minni.“
Þegar fjölskyldan ákvað að kaupa heitan pott fyrir garðinn í Danmörku, opnuðust nýjar dyr. Kristján fékk umboð fyrir Arctic Spa og byrjaði að selja heita potta. Hann varð fljótt „dealer of the year“ hjá fyrirtækinu í Danmörku og opnaði svo sína eigin verslun á Íslandi þegar hann flutti heim.
„Ég tapaði aleigunni í hruninu.”
Eftir góðan uppgang í heitum pottum lenti Kristján í miklum skelli í hruninu og tapaði aleigunni. En hann gafst ekki upp og byggði sig upp frá grunni á ný. Í dag á Kristján verslanir, stórt fasteignasafn og sinnir ótal verkefnum.
„Hörð vinna skilar sér alltaf,“ segir Kristján. „Það er mikilvægt að læra af mistökunum og halda áfram, sama hversu erfiðar aðstæður eru.“
Í þættinum deilir Kristján deilir margskonar lærdómum, sögum úr viðskiptalífinu og persónulegum upplifunum sem hafa mótað hann sem einstakling og frumkvöðul.