Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri varaði sterklega við því að hið opinbera færi inn á íslenskan fasteignamarkað eða byrjaði að niðurgreiða húsnæði með einhverjum hætti.

Ásgeir og Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, voru á opnun fundi í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun til að fjalla um skýrslu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans.

Ragnar Þór Ingólfsson þingmaður Flokks fólksins spurði Ásgeir og Tómas um húsnæðismarkaðinn en hann sagði sögu síðustu átján ára á húsnæðismarkaði vera „blóði drifin.“

Ragnar spurði Ásgeir og Tómas um möguleikann á að taka upp nýtt húsnæðislánakerfi þar sem ríkið kæmi inn á móti bönkum og lífeyrissjóðum.

„Er það virkilega skoðun fjármálastöðugleikanefndar að þetta kerfi sem við búum við sé eðlilegt í öllum samanburði þegar það kemur að lánakjörum til heimila?“ spurði Ragnar.

Ásgeir sagðist alltaf vera opinn fyrir umbótum og breytingum sem væru jákvæðar og allar tillögur um hvernig sé hægt að breyta kerfinu væru mjög vel þegnar.

Hann sagði þó að aðkoma ríkisins á húsnæðismarkaði gæti orðið mjög skaðleg.

„Ég legg áherslu á það, því ég tel það mjög mikilvægt, að hið opinbera sé ekki að fara inn á fasteignamarkaðinn. Ég tel það sé röng ráðstöfun á fjármunum hins opinbera. Líka í ljósi þess sem ég sagði um skuldir hins opinbera eins og þær eru núna,“ sagði Ásgeir.

Hann sagði að það gætu komið rangir hvatar þegar opinberir aðilar fara að niðurgreiða eða leggja fram tryggingar sem taka áhættuna af fólki eða eftir atvikum verktökum sem eru að selja fasteignir.

„Ég held að Íslendingar verði mjög mikið núna að hugsa um það, eftir því sem á undan hefur gengið, hvaða svigrúm ríkissjóður hefur til þess að gera hluti og hvað hann á að gera. Þetta er ein ókeypis ráðgjöf sem ég ætla að veita hérna,“ sagði Ásgeir.

„Hvar er peningum best fyrir komið? Til dæmis núna er töluvert mikið af peningum bundið í eigið fé bankastofnana,“ bætti Ásgeir við.

Ásgeir sagði það ljóst að sínu mati væri það ekki rétt ráðstöfun á peningum og hann var sammála þeim áformum um að selja hlut ríkisins í bönkunum.

„Ég held að þeim peningum sé betur borgið annars staðar, til dæmis í innviði eða eitthvað álíka. Lykilatriði er að það er ekki hægt að nota sama peninginn tvisvar og þegar skuldahlutfallið er komið þetta hátt hjá okkur og við höfum lent í þessum áföllum sem ríkissjóður hefur tekið á sig þá þurfum við bara varlega í það að gefa út ríkisábyrgðir. Íbúðalánasjóður var með ríkisábyrgð sem virtist vera kostnaðarlaust en kostaði síðan bara gríðarlega mikið af peningum.“

Ásgeir sagði að það þurfi að vera hér kerfi sem byggir ekki á opinberum ábyrgðum eða hið opinbera sé á bakvið það.

„Það eru bankarnir, það eru lífeyrissjóðirnir, þessir aðilar ættu alveg að mínu mati að geta lánað fólki fyrir fasteignakaupum. Það má velta fyrir sér hvernig þetta samspil á að vera,“ sagði Ásgeir.

Að hans mati gæti ríkið komið til móts við ákveðna hópa á fasteignamarkaði sem er mikilvægt að hjálpa. „Það eru þó einhver pólitísk viðmið sem þið setjið í ljósi þess sem kjósendur ykkar vilja og við ætlum svo sem ekki að hafa vit á því.“

„En það er mjög mikilvægt að þessi aðstoð sé einblínt á þá hópa. Það sem Íbúðalánasjóður ætlaði að gera var að fara lána allri millistéttinni. Það sem má ekki gerast er að ríkissjóður sé að fara niðurgreiða húsnæði fyrir fólk. Það er eitthvað sem Seðlabankinn fær beint í hausinn með hækkunum á fasteignaverði og vaxtahækkunum. Þá er ríkissjóður einfaldlega að ganga gegn stefnu Seðlabankans að einhverju marki í því.“