Skiptar skoðanir eru meðal markaðsaðila um þróun á gengi bréfa Alvotech á komandi ári, samkvæmt könnun Viðskiptablaðsins sem framkvæmd var dagana 5. til 9. janúar.

Meirihluti svarenda spáir því að Alvotech verði það félag sem hækki mest í verði á árinu 2023. Athygli vekur að Alvotech er einnig það félag sem næst oftast var nefnt sem það félag sem muni lækka mest á árinu.

Alvotech var tvískráð í sumar á First North markaðinn hér á landi og Nasdaq markaðinn í New York. Gengi félagsins tók nokkra dýfu fyrstu vikurnar á markaði og fór gengi félagsins lægst í 5,53 dali þann 15. júlí, eða 45% undir 10 dala útboðsgengið. Gengi Alvotech vestanhafs stendur nú í ríflega 12 dollurum á hlut.

Gengi bréfa Alvotech í fyrstu viðskiptum á First North markaðnum í sumar var um 1.300 krónur á hlut, en fór lægst niður í 786 krónur í nóvember. Í desember fór Alvotech á aðalmarkað Kauphallarinnar og gaf í kjölfarið út að Bandaríska lyfjaeftirlitið hefði staðfest að frestur þess til að afgreiða umsókn félagsins um leyfi til markaðssetningar AVT02 sem líftæknilyfjahliðstæðu við Humira væri til 13. apríl 2023.

Nánar er fjallað um könnunina í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið.

Áskrifendur geta lesið Viðskiptablaðið eftir kl 21 á miðvikudagskvöldum. Blaðið er borið út á fimmtudagsmorgnun að venju.