„Við förum í samningagerðina við Airbus núna og vonumst eftir því að klára hana á nokkrum vikum,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, um viljayfirlýsingu flugfélagsins og Airbus um kaup á þrettán Airbus vélum af gerðinni A321XLR og kauprétt að tólf flugvélum til viðbótar.

Icelandair hefur fjárfest 720 milljónum dala í endurnýjun flugflotans frá árinu 2018. Á tímabilinu hefur eldri 757 vélunum verið skipt út fyrir nýrri 737-MAX vélar.

Icelandair mun áfram reka flugflota sem samanstendur einungis af Boeing vélum fram til ársins 2025. Airbus flugvélarnar A321LR og A321XLR munu að endingu leysa 757 vélar flugfélagsins af hólmi.

„Fyrstu vélarnar verða afhentar árið 2029 en við munum taka inn Airbus leiguvélar frá og með árinu 2025 og erum langt með að vera búin að tryggja okkur fjórar slíkar vélar af gerðinni A321LR. Í kjölfarið stefnum við á að bæta við leiguvélum og vélum af opnum markaði eftir það, fram til ársins 2029,“ bætir Bogi við.

Airbus A321XLR hefur allt að 8.700 km drægni sem gerir Icelandair kleift að nýta vélina á fjarlægari áfangastaði í núverandi leiðakerfi. Þá mun vélin gera flugfélaginu kleift að fljúga til nýrra áfangastaða. Airbus A321LR flugvélin, sem Icelandair mun byrja að leigja árið 2025, hefur allt að 7.400 km drægni sem er um 1000 kílómetrum lengra en 757 vélarnar sem Icelandair hefur byggt sinn rekstur á í langan tíma.

„XLR vélarnar draga lengra en 757 sem skapar frekari þróunarmöguleika fyrir okkar leiðakerfi, og tækifæri til að sækja á nýja og spennandi markaði. Að geta flogið á þessum hagkvæmu þotum lengra vestur til Bandaríkjanna og lengra til austur er mjög spennandi fyrir okkar rekstur. Ég nefni sem dæmi San Fransisco og Los Angeles, en við höfum flogið þangað á breiðþotum og var ágætis sætanýting í þeim flugferðum," segir Bogi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið, fimmtudaginn 13. apríl. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.