Anna Morris og Bergur Guðmundsson, eigendur Mjúk Iceland, hafa keypt nýtt verslunarrými að Klapparstíg 29 á 135 milljónir króna. Tískuverslunin kemur til með að opna núna í apríl og verður hún þá sú fjórða á vegum Mjúk Iceland.
Tískuvörufyrirtækið Mjúk Iceland er þá einnig með verslanir á Skólavörðustíg 4, Skólavörðustíg 36 og Laugarvegi 23.
Anna segir í samtali við Viðskiptablaðið að verslunin verði undir sama nafni en muni þó starfa sem nokkurs konar outlet-verslun sem meðal annars hefur það markmið að sýna bæði nýrri og eldri frumgerðir tískuvara.
„Þegar við framleiðum vörurnar okkar þá fer fram mikil tilraunastarfsemi og við erum í raun með fleiri hundruð frumgerðir þar sem ég er stanslaust að hanna nýjar vörur. Nýja verslunin verður einnig frábrugðin hinum verslunum okkar að því leytinu til að við munum sýna viðskiptavinum hluta framleiðsluferlið okkar á staðnum.“
Anna segist ekki kannast við neina aðra fataverslun á Íslandi sem geri slíkt hið sama en á nýja staðnum geta gestir fylgst með framleiðsluferlinu, tækninni og séð hvernig hráefnin verða að hlýjum fatnaði.
„Við munum leggja mikla áherslu á hráefnið, tæknina og fólkið með það í huga að fólk sjái hversu mikil vinna og hugsun fer í hverja og eina vöru. Við erum líka búin að panta uppfærðar saumavélar og ég held að það verði mjög spennandi fyrir okkar viðskiptavini.“
Hún segir jafnframt að viðskiptavinir munu geta sérhannað eigin vörur og valið sér eigin liti og stíl. Vörurnar verða svo saumaðar og settar saman fyrir framan viðskiptavininn í von um að styðja við sjálfbærni og hvetja þar með kaupandann til að nota vöruna í sem lengstan tíma.