Í gærkvöldi fór fram athöfnin Fyrirtæki ársins 2024 við hátíðlega athöfn í Hörpu. Verðlaunin eru byggð á vinnumarkaðsrannsókn en hún á sér yfir aldarfjórðungs sögu. Í ár voru fyrirtækin 158 talsins sem komu til greina en verðlaunin eru veitt í flokkum eftir stærð.

Í flokki stórra fyrirtækja, þar sem starfa 70 eða fleiri, voru það Garri, Límtré Vírnet og NetApp sem urðu fyrir valinu. Í flokki meðalstórra fyrirtækja, þar sem 30-69 starfa, tóku Hringdu, Reykjafell og Toyota á Íslandi verðlaunin heim.

Þegar litið er á minni fyrirtækin, þar sem færri en 30 starfa, voru það Arango, Kjólar og Konfekt og Mjúk Iceland sem stóðu upp úr. Mjúk Iceland vann til flestra verðlauna en þau fengu meðal annars Fyrirmyndarfyrirtæki, Fræðsluviðurkenningu og Fyrirtæki ársins.

Mjúk Iceland vann Fyrirmyndarfyrirtæki, Fræðsluviðurkenningu og Fyrirtæki ársins.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Mjúk Iceland er fjölskyldufyrirtæki sem rekið er af hjónunum Önnu Morris og Bergi Lúðvík Guðmundssyni. Bergur er frá Raufarhöfn og Anna er frá Úkraínu en hún flutti til Íslands árið 2017. Mikið af starfsfólki Mjúk Iceland er einnig frá Úkraínu en Anna og Bergur segjast leggja mikið upp úr því að láta starfsmönnum líða eins og þau séu fjölskylda.

„Vinnan ætti að vera notalegur staður til að vera á, þar sem við eyðum svo miklum tíma okkar þar skapar það rými fyrir sátt og gagnkvæman stuðning fyrir bæði teymið og viðskiptavini. Verkefni okkar sem stjórnendur er að styrkja fólkið í kringum okkur og gefa þeim öllum möguleg tækifæri til að tjá hæfileika sína og karakter. Áreiðanlegasta fjárfestingin er góður starfsandi,“ segir Anna.