IAG, móðurfélag British Airways, hefur náð samkomulagi um að kaupa eftirstandandi 80% hlut í flugfélaginu Air Europa af spænska fyrirtækinu Globalia Group fyrir 400 milljónir evra, eða um 61 milljarð króna. IAG átti fyrir 20% hlut í Air Europa, þriðja stærsta flugfélag Spánar, og á nú félagið að fullu. Reuters greinir frá.
IAG, sem á einnig flugfélögin Aer Lingus og Iberia, sagði að kaupin á Air Europe muni styrkja Madríd sem tengimiðstöð (e. hub) ásamt því að stuðla að bættri tengingu við Suður-Ameríku. IAG gerir ráð fyrir að geta gengið frá kaupunum á næstu átján mánuðum.
Air Europa verður áfram rekið undir sama nafni en verður stýrt af Iberia. Air Europa er með 50 vélar í flota sínum og með 15 vélar í pöntun. Flotinn samanstendur af Boeing 787 Dreamliner og Boeing 737 vélum.
IAG tilkynnti einnig í morgun að samstæðan hefði skilaði hagnaði árið 2022 eftir tæplega 10 milljarða evra tap árin 2020-2021. Rekstrarhagnaður IAG nam 1,3 milljörðum evra í fyrra og hagnaður eftir skatta var um 431 milljón evra, eða um 66 milljarðar króna.