Jöklar ehf., móðurfélag bílaumboðsins Heklu, er að ganga frá kaupum á öllu hlutafé Dekkjasölunnar ehf. Samkeppniseftirlitið heimilaði viðskiptin í gær.
Dekkjasalan flytur inn og selur hjólbarða og felgur og býður upp á þjónustu tengda hjólbörðum, svo sem umfelgun og dekkjaviðgerðir. Fyrirtækið reki eina starfsstöð í Dalshrauni í Hafnarfirði.
Dekkjasalan velti 372 milljónum króna árið 2023, samanborið við 317 milljónir árið áður, sem samsvarar 17,3% aukningu milli ára. Félagið hagnaðist um 8,3 milljónir króna í fyrra samanborið við 5,9 milljónir árið áður.
Eignir Dekkjasölunnar voru bókfærðar á 143,5 milljónir króna í árslok 2023. Eigið fé félagsins nam 35,8 milljónum í lok síðasta árs. Valdimar Sigurjónsson, stofnandi Dekkjasölunnar, á allt hlutafé félagsins.
Jöklar eru móðurfélag Heklu hf. og Heklu fasteignir ehf. Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, er eigandi Jökla.