Eignarhaldsfélagið Hof, móðurfélag IKEA á Íslandi og í Eystrasaltsríkjunum, hagnaðist um 5,7 milljarða króna á síðasta rekstrarári, sem lauk 30. september á síðasta ári, miðað við 4,2 milljarða króna á fyrra ári. Félagið er í eigu bræðranna Sigurður Gísla og Jóns Pálmasona.
Velta samstæðunnar nam 45 milljörðum króna og jókst um fimm milljarða króna á milli ára.
Hagnaður af rekstri Miklatorgs, rekstrarfélags IKEA á Íslandi, nam 824 milljónum króna á rekstrarárinu, sem er nokkuð betri afkoma en á fyrra ári þegar félagið hagnaðist um 499 milljónir króna. Félagið hefur aukið umsvif sín í Eystrasaltsríkjunum á undanförnum árum og rekur nú sjö verslanir og þjónustumiðstöðvar á Íslandi, Lettlandi, Litháen og Eistlandi. Félagið stefnir að því að opna fyrstu IKEA-verslunina í fullri stærð í Eistlandi síðar á þessu ári.