Starfsmenn sem vinna á frægustu aðalgötu Las Vegas, Las Vegas Strip, hafa gefið verkalýðsfélagi sínu leyfi til að boða til verkfalls ef ekki næst að semja við spilavítin MGM og Caesars Entertainment.

Stéttarfélag matreiðslu- og barþjóna kusu með 95% atkvæða að veita verkalýðsforystu heimild til að boða til verkfalls fyrir rúmlega 53.000 húsverði, barþjóna og aðra starfsmenn í borginni ef ekki tekst að semja.

Verkalýðsfélagið segir að það hafi ekki enn sett fram dagsetningu um mögulegt verkfall og að það sé enn gott samstarf á milli félagsins og spilavítanna. Það er því engin trygging að það verði úr verkfallinu.

„Ef spilavítin komast ekki að samkomulagi þá eru starfsmenn tilbúnir að gera allt sem þarf að gera, þar á meðal að fara í verkfall,“ segir Ted Pappageorge, gjaldkeri Culinary and Bartenders Union.

Starfsmenn leitast nú við að uppfæra fimm ára samning með stærstu launahækkun í sögu verkalýðsfélagsins. Þeir segjast einnig berjast gegn auknu vinnuálagi og vilja aukið öryggi fyrir starfsmenn frá slæmri hegðun viðskiptavina. Þar að auki vilja þeir sjá meira starfsöryggi ef heimsfaraldur eða efnahagskreppa dynur á.

Um 40.000 af þeim 53.000 meðlimum verkalýðsfélagsins starfa hjá þremur stærstu spilavítunum á götunni, MGM Resorts, Caesars og Wynn Resorts en samningar þeirra runnu út í sumar.

Síðasta verkfall í Las Vegas átti sér stað árið 1984 en þá fóru 17.000 starfsmenn í verkfall sem stóð yfir í 67 daga.