Rafrænar evrur útgefnar af íslenska fjártæknifyrirtækinu Monerium á þremur ólíkum bálkakeðjum hafa skipt um hendur fyrir ígildi 9 milljarða króna á núverandi gengi í yfir 28 þúsund færslum frá því að þær voru formlega kynntar til leiks síðasta sumar, þar af 2,7 milljarða síðastliðinn mánuð.
Alls eru nú um 7,9 milljónir rafevra – ígildi 1,2 milljarða króna – útistandandi í eigu 827 notenda.
Framan af var rafeyrir Monerium aðeins gefinn út á Ethereum-bálkakeðjunni, sem er sú langtum stærsta fyrir snjallsamninga (Ethereum er líka næststærsta rafmynt heims á eftir Bitcoin eftir markaðsvirði). Í fyrra bættist svo við útgáfa á keðjunni Polygon, sem hófst fyrir alvöru um haustið, og á þessu ári bættist við þriðja keðjan, Gnosis.

„Á hálfu ári hefur brúttóveltan í útgáfu evruauðkennis Monerium þrefaldast úr milljarði króna upp í þrjá. Þessi hraði vöxtur skýrist af nokkrum þáttum, en við kynntum vöruna í raun og veru fyrst um mitt ár í fyrra,“ segir Sveinn Valfells, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Monerium.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á fimmtudaginn, 4. maí.