Kaup þýsku fyrirtækjasamstæðunni Bayer á bandaríska landbúnaðarrisanum Monsanto eru orðin ein verstu fyrirtækjakaup í manna minnum, sé litið til þess hve mikið hlutabréfaverð félagsins hefur fallið. WSJ greinir frá
Werner Baumann var nýtekinn við sem forstjóri Bayer árið 2016 þegar félagið gerði fyrst tilboð í Monsanto. Stjórnendur félagsins lögðu mikið upp úr því að ganga frá kaupunum. Rúmlega tvö ár liðu frá því fyrsta tilboð barst þar til gengið var frá kaupunum í júní á síðasta ári. Síðan þá má segja að allt hafi farið í vaskinn.
Nokkrum vikum eftir að Bayer eignaðist Monsanto tapaði fyrirtækið dómsmáli um hvort gróðureyðirinn Roundup væri krabbameinsvaldandi. Félagið hefur tapað tveimur dómsmálum til viðbótar þar sem það hefur verið dæmt til að greiða 190 milljónir dollara, um 24 milljarða króna. Von er á mun fleiri dómsmálum en á nítjánda þúsund hafa stefnt félaginu vegna Roundup. Bayer hefur áfrýjað og segir notkun á Roundup hættulaus.
Hlutabréfaverð í Bayer lækkaði um 43% fyrsta árið eftir að gengið var frá kaupunum á Monsanto. Hlutabréfaverðið hefur hækkað lítillega síðan en er engu síður rúmlega 30% lægra en þegar Bayer eignaðist Monsanto. Markaðsvirði Bayer er nú það sama og það greiddi fyrir Monsanto eitt og sér.
Vantraustsyfirlýsing var samþykkt á störf Baumann á aðalfundi Bayer fyrr á þessu ári.