Matsfyrirtækið Moody‘s hefur ákveðið að færa lánshæfismat New York Community Bancorp, eignarhaldsfélag Flagstar Bank, niður í ruslflokk í gær.
Síðastliðinn föstudag færði Fitch lánshæfismat bankasamstæðunnar í BBB- sem er lægsta einkunn í fjárfestingaflokki.
Gengi bankans féll um 22% í viðskiptum gærdagsins en gengi bankasamstæðunnar hefur fallið um 60% frá því að félagið birti uppgjör í síðustu viku.
NYCB, sem keypti meðal annars hluti úr hinum fallna banka Signature bank síðasta vor, greindi frá miklu tapi á fjórða ársfjórðungi. Ákvað stjórn bankasamstæðunnar í kjölfarið að fresta öllum arðgreiðslum.
SamkvæmtThe Wall Street Journal hefur gengi bankans ekki verið lægra síðan 1997 og hafa fjárfestar miklar áhyggjur af framhaldinu.
Stór lánveitandi með um 400 útibú
NYCB rekur um 395 bankaútibú víðs vegar um Bandaríkin en er um leið einn stærsti lánveitandi í New York borg. NYCB var stofnað fyrir 164 árum og voru eignir samstæðunnar metnar á 116 milljarða dali eða um 16 þúsund milljarðar íslenskra króna við árslok í fyrra.
Samkvæmt WSJ hefur staða NYCB ollið titringi á Wall Street en fall Signature, Silicon Valley Bank og First Republic bank síðasta vor er enn í fersku minni fjárfesta.
Mikill söluþrýstingur á hlutabréf bankanna þriggja var undanfari áhlaupi í innistæður sem á endanum felldi bankanna.
Um 60% innistæðna tryggðar
Samkvæmt Tryggingarsjóði innistæðueiganda í Bandaríkjunum (FDIC) voru um 60% innistæðna í Flagstar Bank tryggðar á þriðja ársfjórðungi. Hjá Silicon Valley Bank og Signature var hlutfallið um 10% og um 50% hjá First Republic.
NYCB hefur gefið út innistæður í bankanum séu öruggar en samkvæmt gögnum frá desembermánuði höfðu innistæður minnkað um 2% milli fjórðunga.
Til að róa fjárfesta sendi NYCB frá sér kauphallartilkynningu í síðustu viku sem greindi frá því að bankinn búist við 2,8 til 2,9 milljörðum dala í hreinar vaxtatekjur á árinu. Mun það vera örlítil lækkun milli ára en vaxtatekjur NYCB í fyrra námu 3,1 milljörðum dala.