Virði bandarískra ríkisskuldabréfa lækkaði skarpt í morgun eftir að matsfyrirtækið Moody’s lækkaði lánshæfiseinkunn Bandaríkjanna.
Á sama tíma komst fjárlagafrumvarp forsetaembættisins áleiðis í þinginu, sem eykur áhyggjur fjárfesta af vaxandi skuldabyrði og ójafnvægi í ríkisfjármálum.
Ávöxtunarkrafa 30 ára ríkisskuldabréfa hækkaði um 0,11 prósentustig og fór í 5,01 prósent í morgun sem er hæsta gildi kröfunnar frá því í byrjun apríl.
Samhliða lækkuðu afleiðusamningar með bandarískar hlutabréfavísitölur; S&P 500 og Nasdaq féllu um 1,1% og 1,4%. Bandaríski dollarinn veiktist einnig, um 0,7% gagnvart helstu gjaldmiðlum.
Moody’s tilkynnti lækkun lánshæfiseinkunnar Bandaríkjanna síðla föstudags. Þar kom fram að aukin ríkisútgjöld, breikkandi halli á fjárlögum og skortur á trúverðugri aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum væru meginástæður matsins.
Þá varaði fyrirtækið við því að nýtt skattalagafrumvarp stjórnvalda, sem samþykkt var í fjárlaganefnd þingsins á sunnudag, myndi að öllum líkindum grafa enn frekar undan sjálfbærni ríkisfjármálanna.
„Þetta er skýr áminning um að Bandaríkin geta ekki lengur tekið lán á forsendum þeirrar sérstöðu sem þau hafa notið í alþjóðakerfinu,“ sagði Nicolas Trindade, sjóðsstjóri hjá AXA Investment Managers.
Hann benti á að jafnvel þótt bandaríska hagkerfið njóti trausts, geti endalaus skuldasöfnun á lágum kjörum ekki gengið upp til lengdar.