Alþjóðlega lánshæfisfyrirtækið Moody´s Ratings hefur staðfest lánshæfismöt Arion banka og Íslandsbanka, áfram með stöðugum horfum, eftir að stjórn Arion óskaði eftir samrunaviðræðum við Íslandsbanka. Þetta kemur fram í tilkynningum bankanna tveggja til Kauphallarinnar.
Í greiningu Moody‘s segir að matið endurspegli að útlánasöfn bankanna séu með svipuð einkenni og mögulegur samruni þeirra gæti verið nýttur til að ná fram stærðarhagkvæmni og aukna skilvirkni.
Hins vegar sé mögulegur samruni stórt viðfangsefni og flóknari en þær yfirtökur sem báðir bankar hafa áður horft til, sem séu „hóflegri að stærð“. Það leiði af sér aukna rekstraráhættu.
Sú skammtímaáhætta jafnast út með ávinningi til meðalalangs tíma, í formi aukins seljanleika á fjármálamörkuðum sem leiðir til lægri fjármögnunarkostnaðar og aukins aðgengis að mörkuðum.
Moody‘s telur jafnframt töluverða óvissu uppi um hvort samruninn myndi fá grænt ljós frá Samkeppniseftirlitinu.
Moody's staðfesti A2/P-1 langtíma- og skammtíma innlán og A3 lánshæfismat Arion banka fyrir langtíma útgáfur og almenn ótryggð skuldabréf með stöðugum horfum fyrir langtímaeinkunnir.
Moody's staðfesti jafnframt A3 lánshæfismat Íslandsbanka, A2 langtíma- og P-1 skammtíma lánshæfismat fyrir innlán, og A3 lánshæfismat fyrir almenn ótryggð skuldabréf með stöðugum horfum. Langtíma lánshæfismat innlána og lánshæfismat Íslandsbanka sem útgefanda eru með stöðugum horfum. Grunnlánshæfismat (BCA) og aðlagað BCA hefur verið staðfest sem baa2.