Tryggingatæknifélagið Verna býður snjalltryggingar sem veita viðskiptavinum tækifæri til að stýra iðgjöldum sínum og samhliða því draga úr áhættu í umferðinni. Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Verna, segir félagið geta boðið samkeppnishæf verð með því að veita fólki tól og tæki til að stýra iðgjöldunum sínum því þá fari það að aka jafnar sem valdi því að tíðni tjóna lækki um um það bil 15%. „Þegar viðskiptavinir fara að aka af meiri varfærni þá lækkar meðal tjónakostnaðurinn um 10% en þannig lækkar tjónakostnaðurinn okkar um ríflega 20%. Við afhendum þann ábata síðan til neytendanna í formi lægri iðgjalda.
Friðrik Þór segir nokkra þætti valda því að rekstrarkostnaður íslenskra tryggingafélaga sé nokkuð hár í samanburði við evrópsk tryggingafélög. Til að mynda séu þau með mjög dreift útibúanet, mikinn fjölda sjálfstæðra tryggingaráðgjafa og takmarkað framboð af stafrænni þjónustu.
„Þegar litið er á íslensku tryggingafélögin sést að talsverður munur er í hagkvæmni í rekstri á milli þeirra. Sjóvá og VÍS eru álíka stór félög en hins vegar er rekstrarkostnaður Sjóvá 800 milljónum lægri en hjá VÍS. Það eitt og sér bendir til þess að hægt sé að ná umtalsvert meiri árangri í rekstri hjá öðru félaginu."
Hann segir Verna vera með mörg járn í eldinum en þeir eru að selja aðra vöru sem heitir Viss og er farsímatrygging. „Við erum með um það bil 7-8 þúsund viðskiptavini í farsímatryggingu hjá okkur. Við stefnum að því að búa til fleiri snjalltryggingar í framtíðinni en þá erum við alltaf með það að leiðarljósi að lækka áhættu neytenda og búa til stjórntæki fyrir þá til að stýra sinni eigin áhættu og lækka þannig kostnaðinn við trygginguna."
Tækifæri á tryggingamarkaði
Friðrik Þór segir mörg tækifæri vera til hagræðingar og nútímavæðingar þjónustu á íslenskum tryggingamarkaði. „Verð þurfa að verða gagnsærri og fólk þarf að fá að stýra verðunum betur. Það þarf að fá að vita hvað það er að borga fyrir."
Hann segir einnig vera rými til þess að auka samkeppnina á markaðnum en þá þurfi að auðvelda félögum eins og Verna að koma inn með nýjungar. „TM tók stórt jákvætt skref þegar þeir gerðu samning við okkur um að koma tryggingunum okkar á markað."
Þá er hann þeirrar skoðunar að tækla þurfi þá staðreynd að slysakostnaður hækki ár eftir ár. Það sé hins vegar ekki tryggingafélaganna að tækla það sjálfstætt heldur þurfi stjórnvöld að koma að því verkefni. „Örorkubætur undir 15% eru borgaðar út en það eru til rannsóknir sem sýna fram á að örorka undir 15% hafi ekki áhrif á hæfni fólks til að afla tekna. Þetta er þáttur sem hefur mikil áhrif á hækkun iðgjalda hér á landi og er frábrugðinn því sem gerist annars staðar."
Átthagafjötrar tilboðspakkanna
Verðskrár tryggingafélaganna byggja mikið á tilboðum í heildartryggingapakka. Friðrik Þór segir vísbendingar vera um að ef pakkarnir eru ekki endurnýjaðir árlega með því að leita tilboða þá leiði það til þess að fólk greiði of hátt verð þegar fram í sækir.
„Breska fjármálaeftirlitið hefur gert rannsóknir á þessu en þær sýndu fram á að fólk sem hafði keypt ökutækjaog heimilistryggingar í 5 ár eða meira af sama tryggingafélaginu var að greiða um 70% meira en nýir viðskiptavinir. Þar í landi hefur nú verið leitt í lög að verðmismunur á milli nýrra og eldri viðskiptavina sé bannaður. Með því er ætlað að tryggja að fólk greiði sambærileg iðgjöld fyrir sambærilega áhættu."
Friðrik Þór segir varfærnislegt mat Verna benda til þess að munurinn á milli eldri og nýrri viðskiptavina hérlendis gæti verið í kringum 15%. „Einungis um 10-15% af fólki hér á landi skipta um tryggingafélög á hverju ári. Það má því leiða líkur að því að stór hluti neytenda sé að greiða alltof hátt verð fyrir sínar tryggingar í dag. Þökk sé tilboðspökkunum.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .