Forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum eru þekktir fyrir að hnakkrífast um allt milli himins og jarðar en í ár virðast bæði Donald Trump og Kamala Harris vera sammála um eitt. Það er að það ætti ekki að skattleggja þjórfé þjónustustarfsmanna.
Donald Trump var fyrstur til að koma með tillöguna á frambjóðendafundi í júní og ákvað Kamala Harris að koma með sömu stefnu um helgina. Fyrir vikið hefur Trump kallað hana hermikráku Kamala (e. Copy Cat Kamala).
Um er að ræða tillögu sem á eftir að vekja töluverða athygli meðal kjósenda í Bandaríkjunum. Veitingastarfsmenn, barþjónar, hárgreiðslumeistarar, snyrtifræðingar, leigubílstjórar og fleiri verktakar reiða oft á þjórfé til að ná endum saman.
Báðir frambjóðendur tilkynntu áætlanir sínar í Nevada-ríki en þar er búist við harðri baráttu um atkvæði. Veitingastaðir og hótel í Nevada ráða einnig 20% af öllu vinnuafli ríkisins og þar leikur spilaborgin Las Vegas stórt hlutverk.
Repúblikanar hafa lengi verið hlynntir lægri sköttum en sumir demókratar, þar á meðal Joe Biden, hafa einnig lýst yfir stuðningi við áætlunina.
Umræðan kemur einnig upp á tímum þar sem rafrænar greiðslur eru að taka yfir í Bandaríkjunum, þar á meðal í greiðslu á þjórfé. Það þýðir að auðveldara er að rekja féð sem gæti skapað áhættu fyrir starfsfólk sem ákveður ekki að gefa það upp ef það þarf að greiða skatt af því.