Skólum og háskólum víðs vegar um Bangladess hefur verið lokað eftir mikil mótmæli sem hafa orðið sex manns að bana. Mótmælin snúast um aðgengi fólks að opinberum störfum sem eru mjög eftirsótt í landinu.

Ráðningarferli fyrir opinber störf í Bangladess virkar þannig að ættingjar þeirra sem börðust fyrir sjálfstæði landsins frá Pakistan árið 1971 fá forgang umfram aðra umsækjendur.

Þriðjungur opinberra stöðugilda eru frátekin fyrir fjölskyldumeðlimi þeirra sem flokkaðir eru sem stríðshetjur. Önnur störf eru einnig frátekin fyrir konur, minnihlutahópa og fatlaða.

Nemendur halda því fram að kerfið beiti mismunun og vilja þeir að ráðningarferlið snúist um hæfni frekar en frændhygli. Átök urðu þó milli þeirra sem mótmæltu núverandi kerfi og þeirra sem styðja það.

Ríkisstörf eru mjög eftirsótt í Bangladess þar sem þau borga mjög vel en tæplega helmingur allra stöðugilda eru frátekin fyrir ákveðna hópa. Gagnrýnendur segja einnig að kerfið hjálpi einnig þeim sem styðja Sheik Hasina forsætisráðherra landsins en hún tryggði sér embætti í fjórða sinn í janúar á þessu ári.