Aðalsteinn Ingólfsson, forstjóri Skinneyjar-Þinganess, hefur ákveðið að segja sig úr stjórn laxeldisfyrirtækisins Kaldvíkur vegna ákvörðunar þriggja stjórnarmanna félagsins þann 20. desember sl. um að stefnt skuli að kaupum á öllu hlutafé í Mossa ehf. og Djúpskel ehf. og 33,3% hlutafjár Búlandstinds ehf.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Aðalsteini sem barst rétt í þessu en Kaldvík tilkynnti rétt fyrir þrjúleytið í dag að hann hefði látið af stjórnarstörfum hjá félaginu. Skinney-Þinganes er næst stærsti einstaki hluthafi Kaldvíkur með 11,9% hlut í gegnum dótturfélagið Krossey ehf.
Aðalsteinn segist hafa óskað eftir því við stjórn félagsins að hún myndi tilkynna markaðnum ástæðu úrsagnar sinnar úr stjórn félagsins. Stjórnin hafi hins vegar ekki orðið við þeirri beiðni og því ákvað hann að senda út yfirlýsingu um málið.
Telur kaupverðið allt of hátt
Laxeldisfyrirtækið Kaldvík náði í síðasta mánuði óskuldbindandi samkomulagi um möguleg kaup upp á 190 milljónir norskra króna, eða um 2,3 milljarða króna, fyrir nokkrar lykileignir í virðiskeðju fiskeldisiðnaðarins á austurströnd Íslands, þar á meðal kaup á öllu hlutafé í Mossa ehf. og Djúpskel ehf. og 33,3% hlutafjár Búlandstinds ehf.
Seljendur eignanna eru Heimsto AS, sem er stærsti hluthafi Austurs ehf., sem á 55,29% í Kaldvík hf. og Ósnes, sem er í eigu Elísar Grétarssonar, framkvæmdastjóra Búlandstinds ehf. og Birgis Guðmundssonar.
Seljandi alls hlutafjár Mossa ehf. er Heimsto. Seljandi Djúpskeljar og 33% hlutafjár Búlandstinds er Ósval ehf., sem er fyrirtæki í eigu Heimsto að 53,6% leyti og Ósnes að 46,4% leyti.
„Ég tel að verðið í viðskiptunum sé allt of hátt. Ég geri einnig athugasemd við að stærsti hluti kaupverðsins sé greiddur með nýútgefnu hlutafé á genginu 27,6 pr. hlut meðan virtir greiningaraðilar meta að gengi félagsins eigi að vera á bilinu 35-41,“ segir Aðalsteinn.
„Með þessu tel ég að Heimsto AS, sé að hagnast með óeðlilegum hætti á kostnað annarra hluthafa Kaldvíkur. Um hafi verið að ræða sjálfsafgreiðsluviðskipti, en tveir af þeim þremur stjórnarmönnum sem greiddu atkvæði með viðskiptunum eru forstjóri Heimsto og fjármálastjóri. Ég greiddi atkvæði gegn þessum viðskiptum og einn stjórnarmaður sat hjá. Stjórnarformaður neitaði að upplýsa um afstöðu mína í tilkynningu félagsins til kauphallar.“
Aðalsteinn segist telja í aðdraganda þessara væntu viðskipta vera með óeðlilegum hætti.
„Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir af minni hálfu var ekki að neinu leyti tekið tillit til þeirra. Ég hef skrifað ytri endurskoðendum félagsins bréf þar sem ég fer yfir málið frá minni hlið. Ég hef óskað eftir því að viðskiptin verði rannsökuð sérstaklega, m.a. með hliðsjón af ákvæðum hlutafélagalaga, sem fjalla um viðskipti við tengda aðila og skyldu stjórnarmanna til að gæta hagsmuna allra hluthafa félagsins.“
Fréttin var uppfærð eftir að Aðalsteinn sendi frá sér yfirlýsingu.