Félag atvinnurekenda hefur sent Sorpu bs. erindi vegna hækkana á gjaldskrá byggðasamlagsins fyrir móttöku á matvælum í umbúðum, sem notuð eru til jarðgerðar. FA óskar þá eftir rökstuðningi fyrir hækkuninni.

Í erindinu segir að gjald fyrir móttöku á slíkum úrgangi hafi hækkað um rúmlega 86% frá því á fyrri hluta síðasta árs.

„Það er enginn fjárhagslegur hvati fyrir fyrirtæki að taka umhverfis- og loftslagsvænni kostinn og skila útrunnum matvælum í umbúðum inn til jarðgerðar. Það á sérstaklega við vegna þess að keppinautur Sorpu býður umtalsvert lægra gjald fyrir móttöku á almennu sorpi til brennslu,“ segir í erindinu.

Þar segir að gjald fyrir móttöku á matvælum hafi tekið gríðarlegt stökk um síðustu áramót, en þá hækkaði gjaldið um 70% á einu bretti, og sé nú á sama verði og fyrir óflokkaðan úrgang.

„Í tilkynningu um gjaldskrárbreytingar Sorpu í ársbyrjun er ekki að finna neinn rökstuðning fyrir þessari gífurlegu hækkun og fer FA fram á að byggðasamlagið rökstyðji hækkunina og tilgreini þá kostnaðarliði sem liggja að baki.“

Til samanburðar tekur Íslenska gámafélagið mun lægra gjald fyrir móttöku á almennu sorpi og eftir síðustu gjaldskrárbreytingar er umrætt gjald hjá Sorpu nú orðið 44,45% hærra en gjaldskrá almenns sorps hjá ÍG.