Ný mathöll opnaði við Pósthússtræti á föstudaginn. Í mathöllinni verða níu staðir, þar á meðal Enoteca, staður sem matreiðslumeistarinn og sjónvarpskokkurinn landskunni Sigurður Lárus Hall stendur á bakvið ásamt Haraldi Eiríkssyni eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá.
Sigurður Lárus Hall, betur þekktur sem Siggi Hall, segir að þessi nýja mathöll sé í ákveðnum sérflokki.
„Þetta er skemmtilega hannað af Leifi Welding. Staðurinn er smart og það er góður fílingur hérna. Veitingastaðirnir níu eru allir með sína sérstöðu, sitt útlit — það er engin básastemmning. Þetta er allt svolítið erlendis eins og söngvarinn góðkunni sagði. Hér ættu allir að fá eitthvað fyrir sig, hvort sem þeir eru að koma í kokteil eða til að fá sér eitt vín- eða bjórglas. Svo getur fólk valið hvort það vill fá sér indverskan mat, franskan, ítalskan, sushi, taco eða hamborgara. Þetta getur ekki verið betra.“
Það má segja að þetta sé endurkoma mannsins sem aldrei fór.
Siggi hefur verið allt umlykjandi í íslenskri matargerð í gegnum árin. Hann heldur árlega utan um sælkerahátíðina Food & Fun og hefur rekið marga veitingastaði. Lengst var hann á Hótel Óðinsvé eins og margir muna. Spurður hvort hægt sé að tala um endurkomu Sigga Hall nú þegar hann er að opna Enoteca svarar hann: „Það má segja að þetta sé endurkoma mannsins sem aldrei fór. Ég var eiginlega hættur en ég byrja alltaf aftur. Það ekkert hægt að hætta þegar maður er enn við góða heilsu. Þetta er ákveðin ástríða. Alveg eins og Keith Richards mun örugglega deyja uppi á sviði með gítarinn þá mun ég deyja við pönnuna — án þess að ég sé að líkja okkur eitthvað saman,“ segir Siggi og hlær.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út 17. nóvember.