Danski leikfangarisinn Lego hefur hætt við áform sín um að framleiða kubba úr endurunnum flöskum í von um að draga úr kolefnisspori sínu. Fyrirtækið tilkynnti í dag að notkun á nýja efninu sé ekki eins umhverfisvæn og áður var haldið.

Lego sagði árið 2021 að það myndi hætta allri framleiðslu á kubbum sem innihéldu hráolíu innan tveggja ára.

Það var Financial Times sem greindi frá þessari ákvörðun fyrirtækisins sem mun reynast ákveðið bakslag fyrir Lego sem hefur lagt mikið upp úr því að umturna framleiðsluferli sitt. Lego segir það muni engu að síður viðhalda stefnu sinni um að finna sjálfbær efni til að framleiða kubba.

Flestir kubbar sem Lego framleiðir eru í dag búnir til úr akrýlónítrílbútadíenstýren (ABS), en það er ónýtt plast sem er unnið úr hráolíu. Ein af helstu áskorunum fyrirtækisins er að finna efni sem endist jafn vel og plastið.

Niels Christiansen, framkvæmdastjóri Lego, segir í samtali við FT að það sé ekkert „töfraefni“ sem kemur í staðinn fyrir ABS. Fyrirtækið hafi prufað hundruð efna en ekkert virðist endast jafn vel.

„Við erum að fjárfesta meira en 1,2 milljarða dali í sjálfbærniverkefni til ársins 2025 í þeirri von um að draga úr kolefnislosun fyrirtækisins fyrir árið 2032,“ segir Niels.