Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur staðfest að verklagsmistök urðu við úthlutun framlaga til stjórnmálasamtaka undanfarin ár. Þrátt fyrir að lögbundið skilyrði um skráningu í stjórnmálasamtakaskrá hafi ekki verið uppfyllt í sumum tilvikum, telur ráðuneytið að ekki sé unnt að krefja viðkomandi um endurgreiðslu.
Mistökin komu í ljós við innri skoðun ráðuneytisins, en skilyrði um skráningu í stjórnmálasamtakaskrá var bætt við lögin árið 2022.
Framlögin voru greidd árlega í janúar árin 2022, 2023, 2024 og 2025. Á þeim tíma voru aðeins hlutar stjórnmálasamtaka skráð í stjórnmálasamtakaskrá hjá ríkisskattstjóra. Til að mynda var Sósíalistaflokkur Íslands ekki skráður fyrr en í nóvember 2023, og Vinstrihreyfingin – grænt framboð skráði sig ekki fyrr en í september 2024.
Líkt og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum fékk Flokkur fólksins 240 milljónir króna í styrki frá ríkinu þrátt fyrir að vera ekki skráður sem stjórnmálaflokkur heldur félagasamtök.
Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að aðilar sem fá fyrir mistök greidda fjármuni án þess að eiga rétt til þeirra skuli endurgreiða þá. Álitsgerðir ríkislögmanns og lögmanns Flóka Ásgeirssonar telja þó að undantekingar frá þeirri meginreglu eigi við við þessar aðstæður.
„Krafa um endurgreiðslu myndi kippa fjárhagslegum grundvelli undan starfsemi hlutaðeigandi samtaka og þvert gegn markmiðum laganna um að efla lýðræði og tryggja sjálfstæði stjórnmálaflokka,“ segir í niðurstöðum ráðuneytisins
Það er niðurstaða ráðuneytisins að hafi stjórnmálasamtök uppfyllt önnur skilyrði til úthlutunar en það sem varðar skráningu í stjórnmálasamtakaskrá, þá standi veigamikil rök gegn því að endurkröfuréttur sé fyrir hendi:
Framlögin eru liður í að tryggja starfsskilyrði og sjálfstæði stjórnmálasamtaka og efla lýðræði. Krafa um endurgreiðslu myndi kippa fjárhagslegum grundvelli undan starfsemi hlutaðeigandi samtaka, þvert gegn markmiðum laganna.
„Um var að ræða misbrest í verklagi við úthlutun framlaga og bæði stjórnvöld og viðkomandi stjórnmálasamtök stóðu í þeirri trú að lagalegur réttur stæði til fjárframlaganna. Ef ekki hefði verið fyrir þennan misbrest hefði ráðuneytið haft tilefni til að leiðbeina stjórnmálasamtökum um skráningu, áður en fé var fyrst úthlutað úr ríkissjóði eftir lögfestingu skilyrðisins,” segir á vef Stjórnaráðsins.
Loks mælir það gegn endurkröfurétti að lögin hafi verið framkvæmd á þessa vegu um nokkurt skeið og viðtakendur greiðslnanna hagað starfsemi sinni til samræmis við þá trú að framlögin væru lögmæt og endanleg, samkvæmt ráðuneytinu.
Til að bregðast við mistökunum hefur ráðuneytið þegar endurskoðað verklag sitt við úthlutun framlaga og hyggst beita sér fyrir lagabreytingum. Markmiðið er að skýra betur ferla og tryggja betri eftirfylgni með skilyrðum til úthlutunar í framtíðinni.
Skráningardagsetningar í stjórnmálasamtakaskrá gefa vísbendingu um hvenær hvert stjórnmálasamtak uppfyllti skilyrðið:
- Samfylkingin: 13. janúar 2022
- Framsóknarflokkurinn: 19. janúar 2022
- Miðflokkurinn: 24. janúar 2022
- Viðreisn: 25. janúar 2022
- Píratar: 16. mars 2022
- Sjálfstæðisflokkurinn: 8. apríl 2022
- Sósíalistaflokkur Íslands: 21. nóvember 2023
- Vinstrihreyfing – grænt framboð: 25. september 2024