Töluvert færri aðilar á íslenska skuldabréfamarkaðinum telja að taumhald peningastefnunnar sé of laust heldur en fyrr í ár. Hlutfall svarenda í könnun Seðlabankans, sem framkvæmd var fyrir viku, sem telja taumhaldið of laust var 18% samanborið við 67% í ágúst og 79% í apríl.
Þá fjölgaði þeim sem telja taumhaldið hæfilegt í 67% úr 29% í ágúst. Um 15% svarenda telja taumhaldið of þétt en í ágúst var hlutfallið 4%.
Frá því að könnun á væntingum markaðsaðila var birt í ágúst hefur peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði stýrivexti í tvígang, um 0,75 prósentur í lok ágúst og 0,25 prósentur í byrjun október. Nefndin hefur hækkað stýrivexti um samtals um 3,75 prósentur í ár, úr 2,0% í 5,75%.
Spá því að vaxtahækkunarferlinu sé lokið
Markaðsaðilar vænta þess að verðbólga verði að meðaltali 9,2% á fjórða fjórðungi þessa árs miðað við niðurstöður könnunarinnar. Þá telja þeir að verðbólga hjaðni áfram og verði 5,1% að ári liðnu og 4% eftir tvö ár. Þetta er minni verðbólga en markaðsaðilar væntu í ágústkönnuninni en þá gerðu þeir ráð fyrir að hún yrði 5,8% að ári liðnu.
Verðbólguvæntingar til fimm ára voru 3,6% og lækkuðu lítillega frá síðustu könnun en verðbólguvæntingar til tíu ára stóðu í stað í 3,5%.
Þá gera markaðsaðilar ráð fyrir við því að stýrivextir hafi náð hámarki í 5,75% og haldist óbreyttir þar til þeir taka að lækka á þriðja fjórðungi næsta árs og verði 5,25% eftir eitt ár og 4,5% að tveimur árum liðnum. Þetta eru lægri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í könnun bankans í ágúst síðastliðnum.
Næsta boðaða vaxtaákvörðun peningastefnunefndar er á miðvikudaginn eftir viku, 23. nóvember.
Þriðjungur spái nafnlækkun fasteignaverðs
Markaðsaðilar voru einnig spurðir um þróun fasteignamarkaðarins á næstu tólf mánuðum. Fjórðungur svarenda tók fram að þau telji að raunverð lækki á næstu tólf mánuðum og um þriðjungur að nafnverð lækki. Þá telja um 60% svarenda að velta muni minnka næsta árið.
Hvað varðar þróun á gengi krónunnar gera markaðsaðilar ráð fyrir að gengi krónunnar hækki lítillega á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 145 krónur eftir eitt ár.
Seðlabankinn leitaði til 36 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði og svör fengust frá 33 aðilum. Svarhlutfallið var því 92%.