Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur heitið því að leggja 25% tolla á allar innfluttar vörur frá Mexíkó og Kanada á fyrsta degi hans eftir að hafa tekið aftur við forsetaembættinu. Þar að auki mun Trump leggja 10% toll á vörur sem koma frá Kína.

Trump greindi frá þessu á samfélagsmiðli sínum Truth Social en ríkin eru nokkrir af stærstu viðskiptavinum Bandaríkjanna.

„Þessir tollar verða í gildi þar til fíkniefni, sérstaklega fentanýl, og allir ólöglegir innflytjendur stöðva þessa innrás inn í landið okkar,“ skrifar Trump í tengslum við fyrirhugaða tolla á Kanada og Mexíkó.

Bandarísk lög heimila forsetanum að tollleggja án þess að fá leyfi frá þinginu, en til þess þarf þó að réttlæta tollana á grundvelli þess að verið sé að verja efnahags- og þjóðaröryggishagsmuni þjóðarinnar.

Hagfræðingar hafa varað við því að áætlun Trumps um að leggja á víðtæka tolla gæti leitt til hærra vöruverðs til neytenda. Tollarnir myndu einnig að öllum líkindum sundra USMCA-viðskiptasamkomulaginu en í gegnum samninginn keyptu bæði Kanada og Mexíkó bandarískar vörur fyrir 1,8 billjónir dala árið 2022.

Kanada, sem er fjórði stærsti olíuframleiðandi heims, sendir megnið af olíu sinni til Bandaríkjanna. Bílaiðnaður landsins er einnig nátengdur Bandaríkjunum en Ford fjárfesti til að mynda þrjá milljarða dala í verksmiðju sinni í Ontario í Kanada í júlí á þessu ári.

Tengsl Kína við fentanýl

Tollarnir sem Trump vill leggja á Kína tengjast ópíumfaraldrinum sem hefur herjað á Bandaríkin undanfarin ár og varð 81 þúsund Bandaríkjamanni að bana á síðasta ári.

Hið umrædda fentanýl kemur hins vegar ekki frá Kína, heldur eru það forefnin sem flutt eru frá Kína til glæpagengja í Mexíkó sem síðan framleiða fentanýl og flytja það yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Bandaríkin hafa lengi gagnrýnt Kína fyrir að gera ekki nóg til að hafa stjórn á efnaiðnaðinum sínum. Kínverska utanríkisráðuneytið hefur hins vegar sagt að bandarískir stjórnmálamenn séu að gera Kína að blóraböggli fyrir eigin mistök til að takast á við rót fíkniefnavandans í Bandaríkjunum.

Tollarnir munu þó koma til með að breyta mynstri útflutningsvara frá Kína til Bandaríkjanna ef marka má þá tolla sem lagðir voru á Kína undanfarinn áratug. Bandaríkjamenn flytja til að mynda inn enn mikið af snjallsímum, vélum og leikföngum frá Kína en innflutningur á hálfleiðurum, leðurtöskum og fartölvum hefur hins vegar dregist saman.