Að öllu óbreyttu mun Alþingi innleiða tilskipun ESB 2022/2464 um sjálfbærniupplýsingar fyrirtækja (CSRD) í haust. Þó að reglugerðin taki bara til stærri fyrirtækja verða líklegast afleidd áhrif á minni fyrirtæki sem þurfa að skila upplýsingum til þeirra.
Um er að ræða sjálfbærnisregluverk frá Evrópusambandinu en CSRD reglugerðin skikkar fyrirtæki til að veita með heildstæðum hætti upplýsingar um árangur á sviði sjálfbærni, óefnislega virðisþætti og hvernig viðskiptamódel er háð þessum þáttum, byggt á stöðlum European Sustainability Reporting Standards eða ESRS, sem gefnir hafa verið út af EFRAG, European Financial Reporting Advisory Group. Upplýsingarnar skulu ná til allrar virðiskeðju (ekki bara aðfangakeðju) viðkomandi fyrirtækis.
Frumvarp um reglugerðina hefur ekki verið birt í samráðsgátt en samkvæmt sérfræðingum í reikningsskilum og sjálfærni sem Viðskiptablaðið hafði samband við þurfa íslensk fyrirtæki líklegast ekki að skila þessum upplýsingum fyrr en á fjárhagsárinu 2025. Þó að reglugerðin taki bara til fyrirtækja með yfir 6 milljarða í tekjur og 3 milljarða í eignir segir Gunnar S. Magnússon, meðeigandi og yfirmaður sjálfærniráðgjafar Deloitte, að hún muni hafa áhrif á minni fyrirtæki því þau þurfa að veita upplýsingar um virðiskeðjuna til stærri fyrirtækja.
Gunnar bendir á að CSRDreglugerðin breyti í raun grein í ársreikningalögum, sem fjallar um ófjárhagslega upplýsingagjöf sem hingað til hefur verið valkvætt að birta. „Það að fella upplýsingarnar inn undir skýrslu stjórnar með lausum texta verður ekki lengur hægt. Þú þarft að fara mjög skipulega í gegnum staðalinn.
Félög sem hafa verið að birta sjálfærniskýrslur eru komin með grunn sem mun hjálpa þeim mikið. En þetta verður erfiðara fyrir félög sem hafa ekki gert mikið hingað til. Það verður brekka fram undan þar því þeim vantar yfirleitt gögnin. Gögnin eru yfirleitt það erfiðasta,“ segir Gunnar. Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í mánuðinum hafa fjármála- og lánastofnanir ekki náð að uppfylla skilyrði EU Taxonomy flokkunarreglugerðarinnar, sem innleidd var í lög í fyrra vegna gangaskorts
Spurður um hvort þetta muni því ekki ná út fyrir gildissvið laganna, þ.e. til minni fyrirtækja einnig, svarar Gunnar því játandi.
„Þar tengist CSDDD-reglugerðin líka þar sem þú þarft að framkvæma áreiðanleikakönnun á virðiskeðjunni. Litlu fyrirtækin þurfa í raun að finna leið til að koma þessum upplýsingum til stærri fyrirtækjanna og svo þurfa stóru fyrirtækin að pakka þessu saman til banka og lífeyrissjóða þannig þetta er ákveðin keðjuverkun.“
Að öllum líkindum mun Ísland einnig innleiða CSDDD (Corporate Sustainability Due Diligence Directive) bráðlega en hún fjallar um sjálfæra og ábyrga hegðun fyrirtækja, stjórnarhætti og hlítingu við mannréttindi og umhverfismál í rekstri fyrirtækja. Markmið CSDDD er að stuðla að því að fyrirtæki taki tillit til umhverfis- og mannréttindasjónarmiða. Hvað varðar CSRD reglugerðina telur Gunnar að fyrstu árin verði erfiðust. „Við erum í mörgum ráðgjafarverkefnum að hjálpa stóru fyrirtækjunum að ná utan um þetta og skilja kröfurnar. Hvað er það sem er ætlast til af þeim, hvar þarf að gera þessa tvöföldu mikilvægisgreiningu,“ segir Gunnar og bætir við að staðallinn í reglugerðinni sé mjög ítarlegur en í honum eru 1200 gagnapunktar.
„Tilfinningin er samt sú að stóru fyrirtækin muni fara í gegnum eitt skilaár og með eyður á meðan þau eru að átta sig á hvaða gögn vantar. Litlu fyrirtækin munu mögulega byrja að finna fyrir þessu í haust en líklegast verður það ekki fyrr en á fyrri hluta næsta árs. Þá munu stóru fyrirtækin t.d. sjá að þau séu mögulega með 90% af kolefnislosun sinni í virðiskeðjunni og þá byrjar spurningalistinn að dynja á litlu fyrirtækjunum.“
Gunnar segir ekki útilokað að þetta gæti haft þær afleiðingar að þau fyrirtæki sem geta ekki skilað öllum sjálfærniupplýsingum til lánastofnana gætu fengið verri lánskjör í framtíðinni, því þau hafa neikvæð áhrif á sjálfærnisbókhald lánastofnanna.
„Engin spurning en ég held að það sé skilningur í kerfinu um að það sé enginn að fara brenna menn strax. Þetta verður samtal. Þessar upplýsingar eru aðgengilegar og þetta er ekkert mál. Það þarf bara að framkvæma þetta. Það þarf að passa sig að vera með jafnlaunavottun, stefnur um kynferðislega áreitni o.fl. Þetta snýst um að hafa þessi grundvallaratriði í lagi. Það er krafan sem er að koma.“ Gunnar segir að þessu fylgi smá kostnaður í upphafi en það muni síðan jafnast út. „Þetta er bara svipað og fjárhagsupplýsingar og hvernig þær eru teknar saman. Þetta byggir á skilningi og að þú skiljir af hverju þú ert að gera þetta. Mér finnst þetta líka aðskilja svolítið sauðina frá hinum. Þeir sem að vinda sér í þetta þá er það lið í góðum málum en þeir sem eru hikandi og fúlir á móti þeir verða í smá basli með að fá betri kjör og detta út í verðkönnunum og þess háttar,“ segir Gunnar.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.