Bresk yfirvöld hafa ákveðið að hækka komugjald til Bretlands úr tíu pundum, eða rúmlega 1.700 krónum, í 16 pund, eða um 2.700 krónur. Hækkunin er gerð til að minnka þann kostnað sem breskir skattgreiðendur greiða fyrir landamærakerfið.

Ný rafræn ferðaheimild (e. ETA) tók í gildi í byrjun árs og þurfa nú margir ferðamenn sem koma til Bretlands, sem þurfa ekki vegabréfsáritun, að greiða komugjald. Slík kerfi eru þekkt víða, til dæmis í Bandaríkjunum með hið svokallaða ESTA-kerfi.

Samkvæmt núverandi reglum greiða ferðamenn tíu pund fyrir komugjald og gildir það í tvö ár óháð því hversu margar ferðirnar eru.

Breska innanríkisráðuneytið hefur þó ekki ákveðið dagsetningu fyrir hækkunina en segir að hún myndi bæta 269 milljónum punda til viðbótar á hverju ári.

Flugfélög og fyrirtæki innan ferðaþjónustunnar hafa hins vegar gagnrýnt breytingarnar og segja að hækkunin myndi gera Bretland ósamkeppnishæfara í ljósi þess að ESB muni aðeins rukka Breta, og aðra sem ekki þurfa vegabréfsáritun, aðeins sjö evrur fyrir sitt gjald.

Richard Toomer, framkvæmdastjóri ferðamálabandalagsins í Bretlandi, segir að hækkunin sé spark í tennurnar fyrir evrópska gesti í landinu ofan á það að nú þurfa þeir að sækja um leyfi til heimsækja landið í fyrsta sinn.

Ferðaþjónustan skilar Bretum 74 milljörðum punda á hverju ári og tilkynntu ráðherrar í nóvember í fyrra um að þeir vildu fjölga ferðamannafjölda um þriðjung í 50 milljónir manna á ári fyrir 2030.