Í árs­hluta­upp­gjöri Lands­bankans um miðjan mánuð var greint frá áhrifum CRR III á eignir bankans en áður höfðu Kvika, Arion og Ís­lands­banki birt slíkar upp­lýsingar. Sam­kvæmt upp­gjöri Lands­bankans er áætlað að áhættu­grunnur bankans lækki um 64 milljarða króna og að eigin­fjár­hlut­fall hækki úr 24,0% í 25,0%.

Áhrifin eru mest vegna útlána til við­skipta­vina, meðal annars vegna lækkunar áhættu­grunns útlána með veði í fast­eignum. Mestu áhrifin til hækkunar áhættu­grunns eru vegna útlána til byggingar­fram­kvæmda en upp­gjör bankans miðast við 30. júní og því er ekki tekið mið af nýjum reglum EBA.

Sam­kvæmt Hreiðari Bjarna­syni, fjár­mála­stjóra Lands­bankans, mun sú breyting að óbreyttu hafa jákvæð áhrif á út­reikninga tengda CRR III en hann segir engu að síður að Lands­bankinn bíði eftir túlkun Fjár­mála­eftir­litsins á öðrum af­mörkuðum þáttum í reglu­verkinu.

Spurður um hvort breytingarnar muni leiða til breyttra kjara hjá lántak­endum segir Hreiðar ljóst að næmari áhættu­vigt muni hafa áhrif á vöru­fram­boð bankans.

„Veðhlut­föll íbúðalána hafa nú þegar nokkur áhrif á þau vaxta­kjör sem bjóðast hjá Lands­bankanum. Með nýju reglu­verki verður áhættu­vigt íbúðalána enn næmari en áður gagn­vart bæði mis­munandi veðhlut­föllum og tegund íbúðalána og mun vöru­fram­boð bankans til framtíðar taka mið af þeim breytingum,“ segir Hreiðar.

Eins og Við­skipta­blaðið hefur greint frá munu lán með veðhlut­fall undir 55% njóta lægri áhættu­vogar, eða aðeins 20% í nýja reglu­verkinu, en á móti hækka áhættu­vogir lána sem fara yfir 55% veðhlut­fall í 75%.

Þar sem eigið fé ís­lenskra banka er nú þegar mjög hátt í alþjóð­legum saman­burði er talið lík­legt að það eigið fé sem losnar með inn­leiðingu CRR III verði greitt til hlut­hafa með ein­hverjum hætti.

Lands­bankinn er þó í sér­stöðu þar sem ríkis­sjóður er stærsti eig­andinn með 98,2% eignar­hlut.

Spurður um hvernig Lands­bankinn hyggst nýta þetta auka eigið fé segir Hreiðar reglurnar auka arð­greiðslu- og útlána­getu bankans.

„Lækkun áhættu­grunns upp á 64 milljarða króna leiðir til um 13 milljarða króna lækkunar á eigin­fjár­bindingu bankans. Að öðru óbreyttu leiðir breytingin til aukinnar arð­greiðslu­getu og styrkir jafn­framt útlána­getu bankans,“ segir Hreiðar.