Nýsköpunarfyrirtækið Stormur Datacenters undirbýr nú uppsetningu á sjálfbæru örgagnaveri í Ólafsvík, því fyrsta sinnar tegundar hér á landi, en stofnendur Storms segja ótal sambærileg tækifæri blasa við á köldum landssvæðum.
Í samstarfi við fiskþurrkunarfyrirtækið Klumbu verður glatvarmi frá gagnaverinu nýttur til fiskþurrkunar, sem mun draga úr orkunotkun Klumbu og lækka rafmagnskostnað fyrirtækisins um allt að 50%.
„Örgagnaver Storms eru lítil og færanleg og auðvelt er að laga þau að mismunandi aðstæðum, t.d. stækka eða minnka eftir þörfum. Í raun er um að ræða sérhannaðar gámaeiningar, sem einfalt er að setja upp, færa eða tengja saman. Við gagnavinnslu myndar tækjabúnaður í gagnaverinu mikinn varma sem getur gagnast í framleiðsluferlum og samfélagslegum verkefnum. Þannig mætti frekar tala um varmaver, en ekki gagnaver eins og venjan er,“ segir í tilkynningu.
Stormur Datacenters segist stefna á uppsetningu fleiri varmavera á köldum svæðum þar sem glatvarmann má nýta til húshitunar, snjóbræðslu í gangstéttum eða á íþróttavöllum, eða atvinnustarfsemi á borð við fiskeldi á landi.
Leifur Steinn er framkvæmdastjóri félagsins og hefur frá 15 ára aldri unnið með eða í gagnaverum. Hann er laganemi við Háskóla Íslands og samhliða ráðgjafi hjá bandaríska netöryggisfyrirtækinu Path Network.
„Við hlökkum til samstarfsins við Klumbu og í framhaldinu að skoða önnur tækifæri fyrir gagnavinnslu á köldum svæðum, með jákvæðum samfélagsáhrifum. Hingað til hafa íslensk gagnaver verið staðsett á heitum svæðum, þar sem hvatinn til að nýta glatvarmann er lítill. Við viljum opna augu fólks fyrir slíkum möguleikum,” segir Leifur.
Sölvi Guðmundsson, stjórnarformaður og rekstrarstjóri félagsins, tekur í sama streng og segir þegar hafa augastað á spennandi verkefnum.
„Ég hef sterkar taugar til Ísafjarðar þar sem glatvarmi gæti nýst við upphitun á knattspyrnuvellinum á staðnum, svo börn og fullorðnir geti nýtt hann yfir veturinn. Hitalagnir eru nú þegar í vellinum, en það er dýrt að halda þeim heitum með hefðbundnum hætti. Mig dreymir um að leggja þessu verkefni lið, bjóða gagnaversþjónustu á samkeppnishæfu verði en skila ávinningi til samfélagsins í leiðinni,” segir Sölvi.