Kröfur kennara eru að laun þeirra verði sambærileg við laun sérfræðinga á almennum vinnumarkaði. Eins og fjallað hefur verið um í Viðskiptablaðinu þýðir þetta að kennarar eru að krefjast 36% hækkunar.

Þessar kröfur eru á skjön við Stöðugleikasamninginn, sem undirritaður var fyrr á árinu. Þá sömdu Samtök atvinnulífsins við breiðfylkingu stéttarfélaga um 3,25 til 3,5% launahækkun á ári út gildistímann með með lágmarkshækkun upp á 23.750 krónur. Yfirlýst markmið samningsins var að auka fyrirsjáanleika í kjaramálum til lengri tíma og skapa þannig skilyrði fyrir minni verðbólgu og lækkun vaxta.

Eðilega fylgjast aðilar almenna vinnumarkaðarins vel með þróun mála í viðræðum á opinbera markaðnum. Ástæðan er ekki síst sú að það er tiltölulega stutt síðan sömu starfsstéttir, kennarar og læknar, sendu allt á annan endann á íslenskum vinnumarkaði. Það eru mikil líkindi með þróun kjaramála árin 2014 til 2015 og þróuninni í dag.

Á fyrri hluta árs 2014 tókust samningar á almenna vinnumarkaðnum, þar sem samið var um 2,8% launahækkun. Vegna óvissu í efnahagsmálum var einungis samið til eins árs. Varð það gert til að varðveita efnahagslegan stöðugleika, líkt og gert var í samningunum á almenna vinnumarkaðnum í lok maí síðastliðnum.

Seinna þetta sama ár, 2014, hófst kjarabarátta lækna og kennara. Báðar stéttirnar fóru í verkfall áður en samningar tókust en í þeim var samið um 30% launahækkun. Í staðinn fyrir að tala um að varðveita efnahagslegan stöðugleika var talað um réttlæti og leiðréttingu. Á mannamáli þýðir það að þessar stéttir voru að passa upp á að halda launabilinu, en það er einmitt ástæðan fyrir því sem kallað er höfrungahlaup á vinnumarkaði.

Andrúmsloftið á þessum tíma kristallast vel í viðbrögðum Gylfa Arnbjörnssonar, þáverandi formanns ASÍ, við samningum kennara og lækna við hið opinbera. Sagði hann aðildarfélög ASÍ hafa samið við SA á grundvelli efnahagslegra forsendna í byrjun árs 2014. Nokkrum mánuðum seinna hafi allt breyst vegna samninga kennara og lækna við hið opinbera. Þær stéttir hafi samið á allt öðrum forsendum.

„Þar er verið að fjalla um réttlæti og leiðréttingu og slík kjaramálaumræða er allt annars eðlis en umræða sem mótast af því hvaða efnahagslega svigrúm sé til launabreytinga,“ sagði Gylfi í samtali við Viðskiptablaðið í febrúar 2015. „Ef stjórnvöld hafa ekki áhyggjur af efnahagslegum forsendum þá er svolítið erfitt að ætlast til þess að félagsmenn Alþýðusambandsins hafi áhyggjur af þeim. Það virkar ekki þannig.”

Skömmu eftir að Gylfi lét þessi ummæli falla logaði allt í verkföllum á almenna markaðnum. Í maí 2015 náðust loks samningar á almenna markaðnum, þar sem samið var um allt að 7,2% launahækkun og til viðbótar var stór aðgerðarpakki frá ríkisstjórninni, sem kostaði ríkissjóð milljarða.

Þessir samningar voru engan veginn í takti við efnahagslegar forsendur. Í raun voru þessir samningar fullkomin uppskrift að verðbólgubáli. Svo varð þó ekki en það var ekki fyrirhyggju stjórnvalda eða aðila vinnumarkaðarins að þakka. Allar ytri aðstæður féllu með Íslendingum á þessum tíma, sem dæmi fór ferðaþjónustan á gríðarleg flug og óx miklu harðar en nokkur hafði spáð fyrir um.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.